139. löggjafarþing — 166. fundur,  17. sept. 2011.

dagskrá fundarins.

[09:40]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég þakka fyrir það að hér hefur komið fram að Sjálfstæðisflokkurinn lagðist gegn því að frumvarpið um umhverfisábyrgð væri rætt á þinginu að þessu sinni. Ástæðurnar eru klénar því að málið var í umræðu í umhverfisnefnd á öllum fundum í ágúst. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins tóku með einhverjum hætti þátt í þeirri umræðu þó að aðstæður þeirra væru líklega erfiðar.

Það komu ekki fram neinar efnislegar athugasemdir eða litlar við afgreiðslu meiri hlutans á þessu máli. Það er svo með svona mál að auðvitað verður að sæta því að það bíði þá fram í október að þessu sinni og verði væntanlega endurflutt, þá af umhverfisráðherra.

Ástæðurnar voru sagðar tvær, annars vegar að það væri ágreiningur um málið og hins vegar að það krefðist langrar umræðu, en hvað (Forseti hringir.) með mál 20, af hverju er það á dagskrá? Um það er ágreiningur, um það verður mikil umræða.