139. löggjafarþing — 166. fundur,  17. sept. 2011.

Þjóðminjasafn Íslands.

648. mál
[10:05]
Horfa

Frsm. meiri hluta menntmn. (Skúli Helgason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kem aðeins upp til að lýsa því yfir að ég er að mörgu leyti efnislega sammála málflutningi hv. þm. Jónínu Rósar Guðmundsdóttur varðandi þetta atriði. Nefndin fjallaði nokkuð ítarlega um hvort rétt væri að viðhalda heitinu þjóðminjavörður í lögum um Þjóðminjasafn Íslands eða fella það brott í ljósi þess að það má færa fyrir því rök að hugtakið sé ekki eins lýsandi og tæmandi og það kannski var fyrr á árum með þeirri breytingu sem er að verða á stjórnsýslu minja- og safnamála í landinu.

Þau rök sem réðu hins vegar á endanum afstöðu nefndarinnar voru að það væri eðlilegt að samræmi væri á milli þess nafns sem Þjóðminjasafn Íslands hefur borið í 100 ár og heitis þjóðminjavarðar þannig að ef gerð væri breyting á heiti þjóðminjavarðar væri eðlilegt að það yrði rætt í samhengi við hugsanlega nafnabreytingu á safninu sjálfu. Það töldu menn svo viðurhlutamikið að lengri meðgöngutíma þyrfti til að stíga svo róttækt skref þó að vissulega megi halda því fram að eðlilegt sé að taka til endurskoðunar þessi heiti í ljósi þeirra breytinga sem eru að verða á málaflokknum.