139. löggjafarþing — 166. fundur,  17. sept. 2011.

skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins.

741. mál
[10:48]
Horfa

Atli Gíslason (U):

Herra forseti. Þetta mál var tekið fyrir í gær og umræðunni frestað. Það var síðan tekið fyrir aftur og það fór fram hjá mér. Ég fékk ekki vitneskju um það því að ég hugðist taka til máls í 2. umr. og ég hugðist þá líka óska eftir því að málið gengi til sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar milli 2. og 3. umr. Ástæðan er sú að ég og hv. þm. Jón Gunnarsson skiluðum áliti frá 2. minni hluta. Ég vil því ræða þetta mál við 3. umr.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd tók málið til umfjöllunar undir lok maí. Af því tilefni tók nefndin á móti nokkrum fjölda gesta. Að gestakomum loknum óskuðu nokkrir nefndarmenn eftir því að nefndin kallaði á sinn fund sérfræðing í stjórnskipunarrétti til að veita nefndinni álit á þingmálinu og svara spurningum nefndarmanna. Ekki tókst að koma því við fyrir sumarhlé Alþingis, annars vegar vegna anna sérfræðinga í háskólum landsins og hins vegar vegna tímafrekrar umræðu um fiskveiðistjórnarmál.

Nefndin fjallaði að nýju um málið í lok ágúst og 31. þess mánaðar kom Björg Thorarensen, prófessor í lagadeild Háskóla Íslands, á fund nefndarinnar. Björg hafði sitthvað við málið að athuga og var sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu í kjölfarið sent tölvuskeyti þar sem helstu athugasemdir Bjargar komu fram ásamt ósk um viðbrögð ráðuneytisins við þeim. Svar barst frá ráðuneytinu 1. september sl. þar sem ráðuneytið kynnti nefndinni hugmynd um breytingu á þingmálinu ásamt ítarlegum rökstuðningi. Ég vil taka fram að þetta var frumvarp frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og málið snerist um 2. gr. frumvarpsins.

Við upphaf nefnds fundar morguninn 2. september, sem var örstuttur aukafundur sem boðaður var kl. 10 um morguninn, en þingfundur var á dagskrá kl. 10.30 þann sama morgun — á þessum tíma fundaði nefndin að nýju um málið. Við upphaf þess fundar voru nefndarmönnum afhent fimm blaðsíðna drög að nefndaráliti um málið. Strax í kjölfarið bar formaður nefndarinnar fram tillögu um að afgreiða málið þá þegar. 2. minni hluti mótmælti afgreiðslu málsins að svo stöddu. Í fyrsta lagi vegna þess að nefndarmenn hefðu engin tök haft á að kynna sér efni álitsdraganna. Í öðru lagi þar sem verulegt tilefni var talið til að skoða nánar þær hugmyndir sem borist höfðu frá ráðuneytinu og í þriðja lagi þar sem rétt væri að kalla hagsmunaaðila á fund nefndarinnar og gefa þeim færi á að bregðast við breytingartillögu sem kom fram í álitsdrögunum. Þrátt fyrir framangreint var málið, þessi tilmæli, afgreitt á fundinum án þess að farið væri yfir nefndarálitið, án þess að það væri lesið og kynnt fyrir nefndarmönnum.

Annar minni hluti mótmælir harðlega þeim vinnubrögðum sem viðhöfð voru við afgreiðslu málsins. Það er fáheyrt að nefndir Alþingis afgreiði mál með álitsdrögum sem nefndarmenn hafa ekki áður séð og fá ekki tíma til að kynna sér. Engri orku var eytt í að kynna nefndarmönnum efni þeirra.

Oft hefur hagsmunaaðilum verið gefið væri á að kynna nefndum afstöðu sína til þeirra breytinga sem þær hafa hug á að leggja til en slíku var ekki að heilsa í þetta sinn. Af þeim sökum má segja að málið hafi verið afgreitt hálfkarað í óskiljanlegum flýti, ég segi óskiljanlegum flýti vegna þess að þetta er ekki brýnt mál. Það hefði hæglega verið hægt að taka það fyrir á nýju þingi í október og afgreiða það með rökræðu og faglegum hætti í anda lýðræðis.

Það er sem sagt mat 2. minni hluta að nefndin hefði haft full tök á að útfæra markmið frumvarpsins á fullnægjandi hátt í tillögum til breytinga hefði henni á annað borð verið gefinn tími til að fara í slíka vinnu.

Í hugmyndum sem bárust frá ráðuneytinu 1. september var af yfirvegun tekist á við þær athugasemdir sem gerðar höfðu verið við málið og lagðar fram tillögur að haganlegri lausn. Þær athugasemdir höfðu helstar verið gerðar að fyrirkomulag 2. gr. málsins væri ekki nægilega opið útgerðarmönnum og skylda til greiðslu hlutfalls af verðmæti afla ekki nægilega valkvæð. Tillögur ráðuneytisins fólu einmitt í sér tillögu til lagfæringar á framangreindum atriðum. Er það mat 2. minni hluta að slíkt hafi einfaldlega ekki vakið áhuga 1. minni hluta og það er ágalli á þessu máli líka að það var afgreitt frá nefndinni af fjórum hv. nefndarmönnum sem vildu fella 2. mgr. niður en tveir voru á móti eða vildu skoða málið betur.

Álit 2. minni hluta er að í þessu máli hafi verið fullt tilefni til að leita sátta milli þeirra aðila sem málið varðar. Slík vinna hefði án efa skilað farsælli lausn. Til að svo færi skorti 1. minni hluta metnað. Sú staðreynd er sérstaklega bagaleg í ljósi mikilvægis sjávarútvegs fyrir samfélag okkar. Verður starf Samtaka útvegsmanna seint metið til sannvirðis. Nægir í því efni að benda á störf slíkra samtaka að fræðslu-, öryggis- og gæðamálum auk þess sem þau hafa umtalsvert hlutverk þegar kemur að samskiptum við handhafa ríkisvaldsins.

Ég vil geta þess hér að eftir að mér varð ljóst seint í gærkvöldi að málið hefði verið afgreitt úr 2. umr. lagði ég drög að því að semja breytingartillögu sem er í vinnslu og mun koma fram. Ég er ekki með hana í höndunum, ég var að tala við nefndarritarann rétt fyrir umræðuna og hann staðfesti að tillagan kæmi. Tillagan er sem sagt komin inn en ekki er búið að dreifa henni. Ég ætla ekki að tefja tímann með því að lesa hana en þar er gert ráð fyrir að framleiðendur sjávarafurða og aðrir fiskkaupendur svo og þeir sem taka sjávarafurðir í umboðssölu skuli greiða tiltekið hlutfall, allt að 0,5% af samanlögðu verðmæti, en það gera þeir eingöngu af þeim útgerðaraðilum sem hafa óskað eftir því að slíkt yrði gert þannig að þetta er ekki skylduákvæði heldur valkvætt ákvæði.

Um leið og ég legg þessa breytingartillögu fram er það krafa mín, herra forseti, í þessu máli að málið verði tekið af dagskrá þingsins og endurflutt í október, það verði tekið af dagskrá þingsins þegar ný dagskrá liggur fyrir síðar í dag þannig að það verði afgreitt með faglegum rökrænum hætti á nýju þingi í anda ábendinga í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um stjórnmálaumræðu á þingi.