139. löggjafarþing — 166. fundur,  17. sept. 2011.

greiðsluþjónusta.

673. mál
[11:47]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Við ræðum frumvarp til laga um greiðsluþjónustu sem má líkja við blóðrásina í mannslíkamanum þar sem greiðsluþjónustan flytur orku og fjármuni á milli landa og einstaklinga og er afskaplega þróuð á Íslandi. En um leið og hún verður svona mikilvæg og veitir svo góða þjónustu þá verður þjóðfélagið líka mjög viðkvæmt fyrir því ef hún bilar. Við hrun stóðum við nærri því frammi fyrir þeirri staðreynd að þetta kerfi mundi stoppa svipað og þegar blóðrásin stöðvast í líkamanum.

Spurningin er: Var þetta rætt í nefndinni og var hugleitt hvað hægt væri að gera til að reyna að koma í veg fyrir slíkt að fenginni dýrri reynslu í hruninu? Með neyðarlögunum og með því að stofna nýja banka tókst að viðhalda greiðsluþjónustunni og ég hef sagt að það sé allt að því kraftaverk. Ég vildi spyrja hvort þetta hefði verið rætt og um áhættuna.

Síðan vildi ég spyrja annarrar spurningar um Tobin-skattinn, sem menn eru að tala um að leggja á erlendis, hvort hann komi inn í þessar færslur með greiðsluþjónustunni.

Í þriðja lagi vil ég spyrja að því hvort nefndin hafi fjallað um það merkilega fyrirbæri að sá sem notar eða pantar þjónustuna og greiðir með kerditkorti greiðir hana ekki, þ.e. notandinn greiðir ekki umsýslukostnað heldur verslunin sem selur honum — hún neyðist til þess þannig að þetta er þvinguð greiðsla. Ég hef margoft nefnt það, sérstaklega á fyrri stigum þegar kreditkort voru tekin upp, hvort nefndin hafi rætt um þessa gjaldtöku sem þriðji aðili greiðir en ekki fyrirtækið sjálft eða notandinn.