139. löggjafarþing — 166. fundur,  17. sept. 2011.

greiðsluþjónusta.

673. mál
[11:50]
Horfa

Frsm. meiri hluta viðskn. (Magnús Orri Schram) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og áhuga á málefninu. Það má eiginlega segja að í nefndinni hafi áhættan og það mikla álag sem greiðslukerfin voru undir á sínum tíma vetrarmánuðina 2008–2009 óbeint verið rætt. En helsti snertiflötur þessa frumvarps er að setja ein heildarlög yfir greiðsluþjónustuna, þessa blóðrás eins og hv. þm. orðaði svo skemmtilega. Þetta viðfangsefni er sett í einn lagabálk sem skýrir ekki bara málið í heild heldur líka ábyrgðina. Um leið verður eftirlit og vöktun með því sem er í gangi og með hvaða hætti því er framfylgt miklu skýrara af hálfu löggjafans og eftirlitsaðila sem fylgist með því að hlutirnir séu rétt framkvæmdir.

Tobin-skattur var ekkert sérstaklega ræddur í nefndinni. Hins vegar tel ég að þingmenn séu margir áhugasamir um þróun umræðunnar í Evrópu enda hlýtur það að vera fýsilegur kostur að minnka áhættu í bankakerfinu okkur öllum til heilla. Ef skattlagning getur verið hluti af þeirri leið er það a.m.k. umræðunnar virði ef ekki meira.

En sú mismunun sem hv. þingmaður ræddi um, að ódýrara væri fyrir neytandann að láta seljanda vöru og þjónustu bera kostnaðinn, tengist kannski líka þeirri víðtæku umræðu sem við ættum að hafa í samfélaginu um að ódýrara er í raun og veru fyrir neytandann að nota kreditkort en debetkort. Það er þess vegna hagstæðara að fresta greiðslu og taka lán fyrir (Forseti hringir.) eyðslunni. Ég mun koma betur inn á það í seinna andsvari.