139. löggjafarþing — 166. fundur,  17. sept. 2011.

sveitarstjórnarlög.

726. mál
[12:41]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Við erum að ganga til atkvæðagreiðslu um gríðarlega mikilvægt mál sem á sér langa forsögu og hefur verið staðið vel að öllum undirbúningi. Miklar breytingar munu fylgja í kjölfar afgreiðslu þessa máls, verði það að lögum, breytingar sem snúa að því að skýra fjármálareglur sveitarfélaga, um aukið aðgengi íbúa í ákvarðanatökum sveitarfélaga bæði varðandi rekstur þeirra og einstakar framkvæmdir, um íbúakosningar og fleira sem einkennir þetta frumvarp. Um það hefur verið góð samstaða bæði meðal umsagnaraðila og ekki síst meðal nefndarmanna. Ég vek athygli á því að samgöngunefnd er einhuga um þær breytingartillögur sem lagðar hafa verið fram við málið og stendur einhuga að nefndaráliti.

Þær breytingartillögur aðrar sem hafa verið lagðar fram og kynntar ganga gegn markmiðum frumvarpsins, þ.e. um aukið íbúalýðræði, um aukinn aga í fjármálum sveitarfélaga og skýrar reglur sveitarfélaga, og ég leggst gegn þeim.