139. löggjafarþing — 166. fundur,  17. sept. 2011.

sveitarstjórnarlög.

726. mál
[12:46]
Horfa

Þór Saari (Hr) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Með þessari breytingartillögu er verið að festa í sessi fjölda borgarfulltrúa í Reykjavík í 15, sama fjölda og er í dag og sama fjölda og var árið 1908. Seinast þegar Reykvíkingar fengu að velja fjölda borgarfulltrúa sjálfir fækkuðu þeir þeim úr 21 í 15. Sá sem stóð fyrir því var enginn annar en Davíð Oddsson, það var eitt hans fyrsta verk í borgarstjórastóli. Fámennis- og klíkustjórnmál hafa reynst Íslendingum illa og hafa sett fjölda sveitarfélaga um allt land í mjög slæma fjárhagsstöðu. Þetta er ávísun á að áframhald verði á slíkri stjórnun sveitarfélaga og ekki er boðlegt að áfram skuli reiknað með að slíkur lýðræðishalli verði í íslenskum sveitarstjórnum eins og hann er og eins og gert er ráð fyrir bæði í þessari breytingartillögu og í frumvarpinu.