139. löggjafarþing — 166. fundur,  17. sept. 2011.

sveitarstjórnarlög.

726. mál
[13:13]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Hér er verið að stíga skref sem er ekki nema hálft skref og varla það. Gert er ráð fyrir íbúakosningum og aðkomu íbúa og fleira en það er alfarið undir forræði sveitarstjórnarinnar sjálfrar með hvaða hætti þær kosningar fara fram, hvort þær séu ráðgefandi eða bindandi.

Í fyrradag var ráðstefna í tjarnarsal Ráðhússins þar sem fjallað var um reynslu Sviss af íbúalýðræði. Þar kom m.a. skýrt fram að einn auðveldasti þátturinn til að draga úr áhuga íbúanna á íbúalýðræði er ef þeir fá þá tilfinningu að kosningin skipti engu máli því að þeir fá ekki að ráða niðurstöðu hennar. Hér er verið að stíga skref í þá átt en ekki í lýðræðisátt. Þetta er aðför að íbúalýðræði frekar en hitt og hér er farið algerlega í kolranga átt með þessar greinar þannig að ég greiði atkvæði gegn þessu.