139. löggjafarþing — 166. fundur,  17. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[13:23]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Það er ekki undarlegt að skiptar skoðanir hafi verið um þetta mál ef hér er hópur þingmanna, eins og ætla má af ræðum sumra, sem telur að með þessu sé fyrst verið að leiða í lög gjaldeyrishöft. En það er þannig að þau voru í lög leidd af ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar 2008. Aðrir tala eins og það sé verið að lögbinda gjaldeyrishöft út gildistíma laganna sem er jafnvitlaust. Þetta eru heimildarlög og málið hefur snúist um það hversu rúman tíma menn þyrftu til öryggis að hafa til að geta mögulega viðhaft einhverjar takmarkanir í þessum efnum. En áætlunin gengur út á að afnema gjaldeyrishöftin eins hratt og hægt er. Stjórnarandstaðan hefur lagt á það áherslu í málflutningi sínum að það þurfi ekki af öryggisástæðum svo langan tíma sem er mikil traustsyfirlýsing yfir þann árangur sem hefur náðst í efnahagsmálum á Íslandi. [Hlátur í þingsal.] Með öðrum orðum er stjórnarandstaðan bjartsýn á framhaldið og telur að við höfum náð það miklum árangri að það sé hægt að gera þetta jafnvel hraðar en menn töldu fyrir hálfu (Forseti hringir.) ári síðan og þá reynum við það. (Gripið fram í.)