139. löggjafarþing — 166. fundur,  17. sept. 2011.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

704. mál
[13:39]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Alþingi kom á skyldu allra launþega til að greiða iðgjald í lífeyrissjóð árið 1974. Það voru engar reglur til um lífeyrissjóði fyrr en 1997. Þetta hefur byggt upp gífurlegt fé sem einhverjir aðrir stjórna en sjóðfélagarnir. Þetta eru gífurlegir hagsmunir og sjóðfélagarnir eiga þetta fé en samt koma þeir lítið sem ekkert að stjórnum sjóðanna. Það eru einhverjir allt aðrir. Það eru aðilar vinnumarkaðarins sem hafa byggt upp gífurlegt vald með einmitt lífeyrissjóðunum og þeir tilnefna í stjórnirnar, stéttarfélögin sem hafa einhvers konar ígildi lýðræðis og SA, þar sem sjóðfélagarnir hafa ekkert atkvæðismagn.

Ég mun greiða því atkvæði að sjóðfélagar kjósi þær stjórnir, þá menn sem fara með ráðstöfun þess fjár sem fólkinu er gert skylt með lögum að greiða í lífeyrissjóðina. Ég segi já.