139. löggjafarþing — 166. fundur,  17. sept. 2011.

fæðingar- og foreldraorlof.

748. mál
[14:09]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við í félagsmálanefnd höfum fjallað ítarlega um þetta mál og við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins erum ekki á þessu máli og gerðum miklar athugasemdir við það að verið væri að fara eftir athugasemdum frá EFTA varðandi fæðingarorlofskerfið. Lögð er til breyting sem felst í því að Vinnumálastofnun skuli meta hvert tilvik fyrir sig þegar verið er að meta hve lengi fólk hefur starfað á innlendum markaði. Við greiddum atkvæði gegn þessari breytingartillögu og ég stend við þá afstöðu mína.

Hins vegar er margt gott í þessu frumvarpi sem vert er að styðja og af þeirri ástæðu að þar er meira gott en slæmt segjum við já við þessa atkvæðagreiðslu.