139. löggjafarþing — 167. fundur,  17. sept. 2011.

dagskrá fundarins.

[15:33]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég geri alvarlegar athugasemdir við stjórn forseta á störfum þingsins og tek undir með hv. þm. Birni Val Gíslasyni og geri alvarlegar athugasemdir við það að mál nr. 13 á dagskránni í morgun er tekið af dagskrá fundarins núna. 3. umr. um málið var lokið í morgun. (Gripið fram í: Nei.) (Gripið fram í: Jú.) (Gripið fram í: 2. umr. í gær.) — Hef ég orðið, virðulegi forseti?

Ég fór sérstaklega til þingvarðar og spurði hvers vegna umræðunni væri frestað. Umræðunni var frestað vegna tæknilegra atriða, vegna þess að búið var að boða breytingartillögu af hálfu hv. þm. Atla Gíslasonar og þess vegna var umræðunni frestað, en umræðunni sjálfri var lokið. Ég geri alvarlegar athugasemdir við þetta, virðulegi forseti, og óska eftir svari við því hvers vegna svona vinnubrögð eru liðin þegar einhverjir einstakir hæstv. ráðherrar, hugsanlega hv. þingmenn, eru hræddir við niðurstöðu Alþingis og að mál séu tekin af dagskrá þó svo að 3. umr. sé lokið. Ég mótmæli þessum vinnubrögðum harðlega.