139. löggjafarþing — 167. fundur,  17. sept. 2011.

dagskrá fundarins.

[15:40]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég tek undir tilmæli hv. þm. Bjarna Benediktssonar um að fundi verði frestað og fundur verði haldinn með þingflokksformönnum. Það er alsiða, frú forseti, að einstaka nefndarmenn skili sérálitum og leggist gegn afgreiðslu mála og jafnvel því að mál séu tekin úr nefnd. Það er hins vegar meiri hluti nefndarinnar sem hér leggur inn mál, brýnt mál, annars vegar innleiðingu á tilskipun sem átti að vera búið að innleiða í íslenskan rétt fyrir aprílmánuð sl., en auk þess mikið öryggismál sem varðar stórkostlegar hættur í umferðinni. Hv. viðskiptanefnd afgreiddi málið frá sér eftir vandlega yfirvegun og mikla vinnu sem ekki aðeins hv. nefndarmenn lögðu fram heldur einnig nefndarritari og fjölmargir umsagnaraðilar og gestir sem komu á fund nefndarinnar. Ég styð það, frú forseti, að dagskrá þessa fundar verði endurskoðuð.