139. löggjafarþing — 167. fundur,  17. sept. 2011.

dagskrá fundarins.

[15:43]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Þó svo að hið svokallaða mál nr. 13 hafi ekki verið beinlínis tekið fyrir á fundum þingflokksformanna er alveg ljóst að um dagskrá þingsins er samið á síðustu þingdögum. Það er varla nýlunda fyrir þingmenn að samið sé um þinglok.

Við munum vonandi á eftir kynna niðurstöðu sem náðist um miklu alvarlegra mál en mál nr. 13, mál sem snertir líf fólks, þ.e. staðgöngumæðrun. Sátt náðist um hvernig ætti að afgreiða það. Og þó að einstakir þingmenn séu sárir og móðgaðir yfir því að ná ekki sínu fram, hvort sem það eru ökutækjatryggingar eða eitthvað annað, þá er samið um þinglok og samið um það hvernig málum er lokið á Alþingi. Það var einfaldlega hluti af þeim samningum að þetta mál muni bíða. Það er hægt að afgreiða þessar ökutækjatryggingar á nýju þingi, sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir er að nefna við okkur framsóknarmenn sérstaklega einhverra hluta vegna, en þá er það með þeim hætti að samið er um þinglok.

Ég held, frú forseti, að það fari vel á því að halda dagskrá þessa fundar áfram.