139. löggjafarþing — 167. fundur,  17. sept. 2011.

dagskrá fundarins.

[15:56]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Eins og hæstv. forseti veit er ég mjög seinþreyttur upp undir þessum lið. Ég ber fram einfaldar spurningar um það hvers vegna mál var tekið af dagskrá.

Fyrir mér lítur málið svona út. Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra flytur mál inn í þingið. Það er tekið til meðferðar í hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd. Burt séð frá því hvað mönnum finnst um niðurstöðu nefndarinnar, og ég er ekki sáttur við allt í þeirri niðurstöðu, skilar hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd málinu til þingsins en þegar málið er ekki í þökk við hæstv. ráðherra tekur hæstv. forseti þessa ákvörðun, væntanlega í samráði við hæstv. ráðherra, þó ég fullyrði ekki að svo sé. Þingið hafi skapað hæstv. ráðherra einhver leiðindi þannig að það verður bara að taka málið af dagskrá þingsins.

Ég vil líka að það komi fram að þegar 3. umr. lauk í morgun spurði ég sérstaklega eftir því af hverju umræðunni hefði verið frestað, hvort hún hefði ekki örugglega klárast. Jú, umræðan kláraðist, mælendaskráin tæmdist en umræðunni var frestað vegna tæknilegra atriða, vegna þess að það átti eftir að dreifa breytingartillögu. Þetta finnst mér vera alger móðgun við Alþingi (Forseti hringir.) af hálfu framkvæmdarvaldsins.