139. löggjafarþing — 167. fundur,  17. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[15:57]
Horfa

Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir framhaldsnefndaráliti um frumvarp til laga um Stjórnarráð Íslands.

Nefndin hefur fjallað um málin að nýju eftir 2. umr. og fengið á sinn fund Ágúst Geir Ágústsson frá forsætisráðuneyti.

Umfjöllun nefndarinnar varðaði fjölmörg efnisleg atriði, m.a. um ákvörðunarvald um fjölda ráðuneyta og heiti þeirra, skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta, stjórnunar- og eftirlitsheimildir ráðherra og hljóðritanir ríkisstjórnarfunda.

Meginefni þeirra breytinga sem hér eru lagðar til er að nú kveða lögin á um að þingsályktun skuli leggja fram um breytingu á ríkisstjórn, og að gæta beri þess að eðlislík stjórnarmálefni heyri undir sama ráðuneyti. Við leggjum til frestun á gildistöku þess ákvæðis að fleiri en einn ráðherra geti starfað innan sama ráðuneytis, og leggjum fram, eins og óskað var eftir við umræður í gær, dæmi í nefndaráliti um svokölluð óbindandi álit. Má þar t.d. nefna leiðbeiningar sem gefnar voru út af fjármálaráðuneytinu árið 2004 um árangursstjórnun í ríkisrekstri sem ætla má að séu á náttborðum hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins.

Jafnframt telur meiri hlutinn nauðsynlegt að taka fram að í nefndaráliti meiri hlutans um málið, þskj. 1857, í umfjöllun um kjör aðstoðarmanna, leggi meiri hlutinn til að aðstoðarmenn verði felldir undir kjararáð og lögð til breyting á þeim lögum. Meiri hlutinn tekur fram að breytingartillagan fól í sér að tekið væri fram í lögum um Stjórnarráð Íslands að um launakjörin færi samkvæmt ákvörðun kjararáðs um skrifstofustjóra.

Undir þetta framhaldsnefndarálit rita, auk undirritaðs, hv. þm. Álfheiður Ingadóttir, Þráinn Bertelsson, Mörður Árnason og Þór Saari og hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir með fyrirvara.

Nefndin leggur til að málið verði samþykkt.