139. löggjafarþing — 167. fundur,  17. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[16:15]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég verð að taka undir ósk og sjónarmið félaga míns, hv. þm. Péturs H. Blöndals. Mér finnst fundarstjórn forseta, dagskrárvald hans og þær útskýringar sem hafa komið fram á þessari nýju dagskrá ekki boðlegt. Mér finnst útskýringarnar ekki útskýra hvernig málum er háttað og það er alveg ljóst að það er verið að breyta dagskrá þingsins að ósk og frumkvæði framkvæmdarvaldsins, ekki löggjafarvaldsins. Nefndirnar voru búnar að afgreiða þetta fyrir sinn hatt.

Ég mótmæli þessum framgangi forseta og hefði óskað þess innilega að hæstv. forseti hefði hlustað á hv. þm. Bjarna Benediktsson þegar hann hvatti forseta til að funda með þingflokksformönnum. Það hefur komið í ljós að það voru ekki þingflokksformenn, a.m.k. ekki þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, sem kröfðust þess að þetta mál yrði tekið af dagskrá. Ég segi að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hafi einfaldlega ekki hugnast þær breytingar sem nefndir (Forseti hringir.) þingsins gerðu á málinu og þess vegna fáum við í þinginu ekki að greiða atkvæði um það. Mér finnst það miður.