139. löggjafarþing — 167. fundur,  17. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[16:29]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég kem hingað fyrst og fremst til að fagna því að þeir sem hafa undanfarna daga lagst í fremur ómálefnalegan leiðangur í þeim eina tilgangi að drepa þetta mál, koma í veg fyrir að það fengi lýðræðislega afgreiðslu hér hafa ekki haft erindi sem erfiði. (Gripið fram í: Þetta er rangt.) (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Hér er komið af sanngirni til móts við það eina sem ég hef komið auga á að hafi verið efnislegt í umræðum um þetta mál að undanförnu, þ.e. spurninguna um það hvort Alþingi sjálft eigi að koma að einhverju leyti að ákvörðunum um meiri háttar breytingar á verkskipulagi innan Stjórnarráðsins. Með sanngjörnum hætti er fundin leið til að mæta því sjónarmiði á miðri leið með breytingartillögu. Af slíkri sanngjarnri niðurstöðu vaxa allir sem að henni standa nema þeir einir sem reyna að slá sig til riddara á kostnað hinna sem sýndu þeim sanngirni. Það eru litlu mennirnir í svona aðstæðum. [Kliður í þingsal.]

Ég óska hæstv. forsætisráðherra sérstaklega til hamingju. Hún hefur sýnt mikla staðfestu í (Forseti hringir.) að leiða þetta mál til lykta og sá sem hér talar hefur reyndar ekki verið langt undan. [Kliður í þingsal.] (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður um þögn í sal.)