139. löggjafarþing — 167. fundur,  17. sept. 2011.

sveitarstjórnarlög.

726. mál
[16:45]
Horfa

Frsm. samgn. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina varðandi 108. gr. Ég tek það fram að þó að þessi tillaga komi inn núna við 3. umr. hefur hún átt sér allnokkurn aðdraganda í umræðu, bæði í nefndinni og meðal nefndarmanna á milli umræðna.

Eins og fram kemur í 108. gr. segir þar um íbúakosningar, með leyfi forseta: „Hið sama á við ef minnst 20% af þeim sem kosningarrétt eiga í sveitarfélagi óska almennrar atkvæðagreiðslu …“ Það er ekki lágmark, 20%, þ.e. minnst 20%, og ekkert hámark í því.

Eins og ég nefndi áðan þegar ég fór yfir álit nefndarinnar höfðu komið fram gagnrýnisraddir á það sem hv. þm. Kristján L. Möller benti á að þetta þætti lág tala í fámennum sveitarfélögum. Okkur er oft tamt að hugsa um minni sveitarfélög í tillögum okkar. 20% í stórum sveitarfélögum líkt og Reykjavík og á suðvesturhorninu er ekki sérstaklega erfitt að ímynda sér að valdi miklum erfiðleikum. En hvers vegna 33% en ekki 20% eða 5%, eins og einn hv. þingmaður nefndi, eða 50%? Þetta er einfaldlega niðurstaða eftir viðræður nefndarinnar við ráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga og umsagnaraðila sem fjölluðu um málið með okkur. Það komu vissulega til önnur hlutföll en þetta er niðurstaðan af þeim viðræðum sem nefndin átti við ráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga og fulltrúa hagsmunaaðila sem til okkar komu. Þetta hefði sennilega getað orðið 34%, eða 32% sömuleiðis, en niðurstaðan varð sú að hafa það þriðjung íbúa að hámarki, hærra mætti þakið ekki vera af hálfu sveitarfélaganna.