139. löggjafarþing — 167. fundur,  17. sept. 2011.

sveitarstjórnarlög.

726. mál
[16:47]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þá vil ég leyfa mér að spyrja formann samgöngunefndar hvort umræða hafi farið fram í nefndinni um undirskriftir. Í umræddri grein stendur að innanríkisráðherra skuli setja reglugerð um það hvernig eigi að standa að söfnun undirskrifta. Að gefnu tilefni, virðulegi forseti, er mjög mikilvægt að spyrja um það hvort umræða hafi farið fram í nefndinni og hvort nefndin hafi ef til vill séð drög að reglugerð um hvernig eigi að standa að þessu.

Ég get tekið dæmi. Ástæðan fyrir því að ég spyr er sú að hér hefur farið fram undirskriftasöfnun um ákveðið verkefni sem innanríkisráðherra tók svo bókstaflega að hann sló öll þau verk af sem mótmælt var. Ég á auðvitað við stórframkvæmdir í samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu. Þar var staðið að því með ákveðnum hætti. Þess vegna spyr ég: Ef íþróttafélag vill fá fram íbúakosningu um hvort leggja eigi grasvöll þá sé nóg að það sett sé upp á heimasíðu knattspyrnufélagsins og þar sé gefinn kostur á að skrá sig inn? Og ef í 500 manna sveitarfélagi næst þannig í 165 manns, eða kannski bara 100, þá sé skylt að fram fari íbúakosning eftir svona undirskriftasöfnun? Eða á að nota einhverja aðra aðferð?

Það er verst að innanríkisráðherra er farinn úr salnum, hann heyrir ekki þessa spurningu, en ég mun þá nota tækifærið í ræðu á eftir og spyrja ef hv. þm. Björn Valur Gíslason, formaður samgöngunefndar, getur ekki svarað því að nefndin hafi haft forskrift að reglugerð hvað þetta varðar. Vegna þess að að mínu mati er mjög mikilvægt er að vita hvaða aðferð verður sett og hún á þá að vera eins í öllum sveitarfélögum um hvernig hægt er að safna þessum íbúafjölda, þessari skráningu, til að fara fram á íbúakosningu.