139. löggjafarþing — 167. fundur,  17. sept. 2011.

sveitarstjórnarlög.

726. mál
[17:16]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Það er að mörgu leyti ágætt að fá þessa breytingartillögu fram. Ég er einn af þeim sem styðja sameiningu sveitarfélaga. Ég hefði hins vegar, eftir það hrun sem sveitarfélag hafa lent í á undanförnum árum, viljað sjá frumvarp frá hæstv. innanríkisráðherra sérstaklega um sameiningu sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Það er brýnt mál að frekar sé sameinað þar.

Ég geri tvær athugasemdir við þessa breytingartillögu, annars vegar þá að íbúar í sveitarfélagi eigi að vera að lágmarki 1.500. Sagan sýnir okkur að stærri sveitarfélög eru ekkert betur rekin en þau smærri. Ef eitthvað er höfum við söguna úr Reykjavík sem er stærsta sveitarfélag landsins, það eru ekki endilega rök fyrir því að stækka sveitarfélög.

Annað sem ég vildi gera athugasemdir við er að þó að það komi fram að hægt sé að gera undantekningar við sameiningar sveitarfélaga þá eru landfræðilega aðstæður mjög víða um land einfaldlega með þeim hætti að sveitarfélög verða aldrei annað en einhverjar sundurslitnar einingar ef þeim er slegið saman.

Það þriðja sem ég geri athugasemd við er að mér finnst ekki hægt að neyða fólk til samvistar með lagasetningu. Ég mundi hins vegar styðja slíkar sameiningar ef tryggt væri að fjöldi sveitarstjórnarfulltrúa væri nægur í sameinuðu sveitarfélagi og ef tryggt væri að íbúar. t.d. á Álftanesi hefðu eitthvað um það að segja hvernig Garðabæ væri stjórnað eftir sameiningu. Þá erum við að tala um góða hluti, þá erum við að tala um lýðræði. En það þarf að hugsa þessa hluti heildstætt en það er ekki verið að gera, hvorki í þessu frumvarpi né með þessari breytingartillögu en vonandi verður þetta hænuskref í rétta átt. Að óbreyttu tel ég mig ekki geta stutt þessa breytingartillögu hv. þm. Sigmundar Ernis Rúnarssonar og Marðar Árnasonar þó að í eðli sínu sé hún hreint ekki galin.