139. löggjafarþing — 167. fundur,  17. sept. 2011.

sveitarstjórnarlög.

726. mál
[17:20]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég leyfi mér að mótmæla því að ég sé á móti öllu í þinginu. Ég hef verið að greiða atkvæði undanfarna tvo daga. Ætli ég sé ekki búinn að greiða hátt í 100 sinnum atkvæði og ef ég man rétt hef ég í fjögur eða fimm skipti verið á rauða takkanum, í fjögur eða fimm skipti á hvíta takkanum en í öll hin á græna takkanum þannig að þetta er einfaldlega rangt hjá hv. þingmanni.

Gallinn við þessa breytingartillögu er sá, frú forseti, að ekki er gert ráð fyrir neinni lýðræðisvæðingu þrátt fyrir að sveitarfélög séu sameinuð. Til dæmis er ekki gert ráð fyrir því að íbúar fjarlægra hluta í sveitarfélagi hafi eitthvað um það að segja með hvaða hætti sveitarfélagið er rekið. Svo að ég taki dæmi um væntanlega sameiningu á Álftanesi við Garðabæ þar sem ég bý á Álftanesinu þá stendur til að sameina þau tvö sveitarfélög en hvergi í þeirri sameiningu er gert ráð fyrir einu eða neinu sem varðar sjálfsákvörðunarrétt Álftnesinga í neinum málum. Og við vitum að það fyrsta sem mun gerast, og er bara tímaspursmál, er að skólinn á Álftanesi verður lagður niður og börnin verða keyrð inn í Garðabæ. Þetta er það sem hefur gerst út um allt land og þetta er ekki góð lenska, þetta er ekki gott fyrir samfélagið og þetta er ólýðræðislegt. Það er þess vegna sem ég geld varhuga við ýmsu í frumvarpinu sem og í breytingartillögunni, menn eru þarna að stíga ákveðin skref í rétta átt en betur þarf að huga að heildarmyndinni áður en við förum að stíga þessi litlu skref því annars endum við ef til vill á röngum stað.