139. löggjafarþing — 167. fundur,  17. sept. 2011.

sveitarstjórnarlög.

726. mál
[17:22]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég kem upp fyrst og fremst til að þakka þá samvinnu sem náðist í hv. samgöngunefnd við vinnslu þessa frumvarps. Ég vil líka nota tækifærið til að þakka öllum sem lögðu hönd á plóginn til að gera það að veruleika, bæði starfsmönnum ráðuneytisins, nefndarriturum okkar, starfsmönnum Sambands íslenskra sveitarfélaga, sveitarstjórnarmönnum víða af landinu og eins endurskoðendum og lögfræðingum sem komu á fund nefndarinnar. Meðferð þessa máls var til fyrirmyndar fyrir hv. samgöngunefnd og hv. þm. Björn Valur Gíslason stýrði því starfi af mikilli lipurð og festu um leið. Ég tel að ef ekki hefði verið unnið svona að málinu værum við ekki að samþykkja þessi lög sem nú stendur til að klára í dag. En í ljósi þess að ég hef mikinn áhuga á að þessi lög verði staðfest og vegna atburða sem áttu sér stað hér fyrr í dag tek ég ekki séns á að ræða þetta mál frekar við 3. umr.