139. löggjafarþing — 167. fundur,  17. sept. 2011.

sveitarstjórnarlög.

726. mál
[17:28]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni L. Möller fyrir að hraða sér svona með ræðu sína, enda íþróttakennari þannig að hann á kannski auðvelt með að gera það. En ég vil fyrst og fremst koma því á framfæri að Framsóknarflokkurinn leggur að sjálfsögðu mikið upp úr öflugu sveitarstjórnarstigi. Við þessa umræðu hefur fulltrúi Framsóknarflokksins ekki enn haldið ræðu og á því er ákveðin skýring, sá er sat í nefndinni fyrir Framsóknarflokkinn ákvað að segja sig úr flokknum og fara í aðra vegferð. Ég hef hins vegar setið tvo eða þrjá fundi samgöngunefndar sem áheyrnarfulltrúi og ég þakka fyrir að hafa fengið að gera það. Ég tel að nefndin hafi reynt hvað hún gat til að mæta þeim sjónarmiðum sem hafa komið fram. Ég held að málið sé býsna þroskað og gott en auðvitað er það svo að við teljum að eitthvað megi vera öðruvísi.

Ég vil sérstaklega fagna hugmyndinni um að lengja aðlögunartíma varðandi fjármálareglurnar. Ég hef efasemdir um það, svo ég tali fyrir mig persónulega, að fikta eigi í tölum um lágmarksíbúafjölda. Sameining mun eiga sér stað þegar fólkið er tilbúið til þess, þannig ganga hlutirnir fyrir sig að mínu viti. Hins vegar er alveg sjálfsagt að horfa á alla hluti og skoða þá. Ég held t.d. að það sem kemur fram í frumvarpinu sem snýr að borgarfulltrúum og sveitarstjórnarfulltrúum sé skynsamlegt. Ég er hlynntur því.

Í heildina vil ég þakka nefndinni fyrir þessa vinnu. Ég ítreka að Framsóknarflokkurinn lítur á sveitarstjórnarstigið sem annað meginstjórnsýslustigið í landinu og ég legg mikla áherslu á að það stjórnsýslustig geti vaxið og dafnað til að það geti sinnt þeim verkefnum sem því ber skylda til. Ég held að við ættum líka að horfa til þess að gera sveitarstjórnarmálum betur skil jafnvel þegar við erum að nefna eins og hefur verið gert ráðuneyti upp á nýtt. Við erum með innanríkisráðuneyti í dag sem fer með sveitarstjórnarmálin. Ég hefði haldið að til að leggja áherslu á mikilvægi þess stjórnsýslustigs ætti ráðuneytið að heita innanríkis- og sveitarstjórnarráðuneyti svo dæmi sé tekið eða eitthvað slíkt. Það skiptir miklu máli að við förum ekki þá vegferð að ríkið sé tilskipunaraðili gagnvart sveitarfélögunum. Það má ekki vera þannig.

Frú forseti. Ég læt þetta duga. Þetta er fyrst og fremst yfirlýsing um hvaða hug Framsóknarflokkurinn ber til þess stjórnsýslustigs sem sveitarstjórnarstigið er.