139. löggjafarþing — 167. fundur,  17. sept. 2011.

sveitarstjórnarlög.

726. mál
[17:31]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Til að stytta þessa umræðu vísa ég í rökstuðning minn í umræðunni í gær gegn breytingum á 108. gr. Sú afstaða mín stendur. Hv. þm. Kristján Möller vék að 108. gr. einnig og framkvæmd hugsanlegra kosninga og hvort það væri æskilegt að setja reglur í lög. Mér finnst það vel koma til álita að hafa samræmdan lagaramma fyrir það. Ég vek athygli á því að samkvæmt frumvarpinu hefur sveitarstjórnin úrslitavald að því leyti að hún ákveður framkvæmd kosninganna og þá spurningu sem borin verður upp, hún er á hennar valdi. Þetta er reyndar eitt af því sem hefur verið gagnrýnt af hálfu þeirra sem telja kosninguna og fyrirkomulagið ekki nægilega lýðræðislegt.

Ég fyrir mitt leyti sé ekki ástæðu til að vefengja undirskriftasöfnun Félags íslenskra bifreiðaeigenda, sérstaklega þegar höfð er hliðsjón af því að það var í samræmi við álit sveitarstjórnarmanna á Suðurlandi og Reykjanesi að ef það væri þannig að þeir ættu alfarið að greiða fyrir viðkomandi vega- og samgöngubætur væru þeir því andvígir. Einhvers konar blanda, aðrar leiðir, þótti þeim koma til greina.

Ég ítreka að það er að mínu mati mikilvægt að hafa skýrar reglur um þetta, mér finnst alveg koma til álita að setja það í lög. Við munum að sjálfsögðu kalla til sérfróða menn til að hjálpa okkur að smíða regluverkið og síðan í framhaldinu er rétt að íhuga hvort eigi að setja þessar reglur í lög, því að ég er alveg sammála hv. þingmanni að um þetta þurfa að gilda mjög skýrar reglur.