140. löggjafarþing — 2. fundur,  3. okt. 2011.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[20:26]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Góðir landsmenn nær og fjær. Það er trúlega rétt hjá formanni Sjálfstæðisflokksins, Bjarna Benediktssyni, og það gáfulegasta, held ég, sem hann hafi sagt í ræðu sinni áðan að fólkið hérna úti sé ekki komið hingað til að lýsa sérstaklega yfir stuðningi við ríkisstjórnina, ég hygg að það sé rétt. Ég er ekki viss um að það sé komið til að lýsa sérstaklega yfir stuðningi við Sjálfstæðisflokkinn heldur, ég er ekki viss um að sá tími sé kominn. Ætli það sé ekki nær og skiljanlegt að fólkið sé að senda okkur öllum skilaboð? Það er mér nær að halda og þau eigum við að taka alvarlega.

Ef við landsmenn hugsum nú tvö og hálft ár eða þrjú ár til baka og veltum aðeins fyrir okkur þeim aðstæðum sem þá blöstu við á Íslandi, rifjum upp umræðuna eins og hún var. Minnumst þess hvernig var fjallað um okkur í erlendum fjölmiðlum á þeim tíma og berum það saman við stöðuna í dag. Þá getum við a.m.k. sagt, fullyrt og stutt það með gildum rökum og glaðst yfir því að við Íslendingar erum að sigrast á einhverjum mestu efnahagsáföllum sem nokkur þróuð þjóð hefur lent í um langt árabil og áratugaskeið. Fordæmalausar aðstæður, hið fullkomna efnahagslega óveður, sögðu erlendir sérfræðingar sem settu sig inn í stöðu mála hér haustið 2008 og framan af ári 2009. Auðvitað hefur það verið erfitt og ekki án fórna að sigrast á þeim erfiðleikum. Það hefur reynt á þrek allra landsmanna. Margir eiga erfitt og um sárt að binda, en við erum þó komin þangað sem raun ber vitni og loksins sér fram á betri tíð og auðveldari tíma hér á landi, a.m.k. í efnahagslegu tilliti.

Hagvöxtur er genginn í garð. Skerðing lífskjara hefur verið stöðvuð og kaupmáttur er farinn að aukast. Eftirspurn fer vaxandi eftir húsnæði. Einkaneysla vex. Vinnumagn mælist nú meira mánuð frá mánuði og atvinnuleysi lætur undan síga, jafnvel þótt það sé enn mikil meinsemd. Sterk staða útflutnings- og samkeppnisgreina og sú staðreynd að atvinnuvegafjárfesting fer vaxandi, allt eru þetta mjög skýr skilaboð um þann viðsnúning sem er orðinn í hagkerfinu. Það þýðir ekki að berja höfðinu við steininn og neita þegar allir helstu mælikvarðar sýna það sama, sem betur fer, að orðinn er viðsnúningur, bati er genginn í garð og hann á að geta haldið áfram.

Enda er svo komið að það er ekkert sérstakt hér innan lands, nema þá við sjálf, (Gripið fram í.) sem ætti að koma í veg fyrir áframhaldandi bata í þjóðarbúskapnum. Það eru óveðursskýin utan landsteinanna sem eru okkar helsta áhyggjuefni í dag, staðan í Bandaríkjunum en þó einkum í Evrópu þar sem auðvitað er að finna mörg okkar mikilvægustu viðskiptalönd. Það er umtalsverð breyting frá því sem var fyrir hálfu ári, einu ári, tveimur árum þegar óvissan grúfði yfir okkur sjálfum og mestar efasemdir voru um það hvort við hefðum þetta af og björguðum okkur. En það er ekki lengur. Umræðan er ekki á þeim nótum. Nú segja þeir sem þetta greina að mestu áhyggjuefnin stafi af því hvernig alþjóðahagkerfið þróast.

Í þeirri endurskoðuðu ríkisfjármálaáætlun sem fylgir fjárlagafrumvarpinu, og er í þessu snotra hefti með traustu fjalli á forsíðunni, er boðað að nú getum við á grundvelli þess árangurs sem náðst hefur aðlagað það sem eftir er af aðgerðum okkar í ríkisfjármálunum og mildað aðgerðirnar. Við getum það vegna þess að árangurinn í ríkisfjármálum og minni skuldir gera okkur kleift að ná settum markmiðum um jöfnuð og síðan afgang með minni aðgerðum en áður er talið að þyrfti til. Við getum það og ætlum að gera það vegna þess að þung þjóðhagsleg rök mæla með því að nú sé skynsamlegt að styðja betur við efnahagsbatann með mildari aðlögunaraðgerðum það sem eftir er.

Þessi endurskoðun er mikilvæg vegna þess að hún gerir ríkinu og þjóðarbúinu kleift að ráða við útgjaldaáhrif nýgerðra kjarasamninga án þess að fara út af sporinu þannig að við getum nú hækkað laun og hækkað bætur og verðtryggt persónufrádrátt og gert marga slíka hluti án þess að markmið okkar um sjálfbirg opinber fjármál fari fyrir borð.

Í einhverju landi, frú forseti, hefðu aðilar vinnumarkaðarins, sanngjarnir fjölmiðlar og fræðimenn, jafnvel stjórnarandstaðan, fagnað slíkum tímamótum um leið en auðvitað er rétt og skylt að halda mönnum við efnið og gagnrýna það sem of hægt hefur gengið og bent á það sem betur þarf að taka á og er óunnið. Þar er af nógu að taka. Auðvitað vitum við öll að við eigum enn langt í land að ná fullum bata, en ég leyfi mér að halda því fram að málflutningur stjórnarandstöðu og margra fleiri aðila í samfélaginu væri trúverðugri ef menn viðurkenndu þann árangur sem hefur náðst og beindu þá spjótum sínum að og gagnrýndu hitt þar sem of hægt hefur gengið. En þessi ömurlegi svartagallssöngur þar sem hvergi sést til sólar — ekki bara sumt er ómögulegt heldur er allt ómögulegt, það er ekki bara of lítið gert, nei, heldur er ekkert gert — fer held ég æ meira að missa marks eftir því sem batamerkin, sem betur fer, koma í ljós.

Í lok árs 2008 og framan af ári 2009 var umræðan um Ísland og staða Íslands svipuð því sem á við um Grikkland í dag. Það var einfaldlega þannig að hvar sem farið var utan eða innan landsteina og í samskiptum við erlenda fjölmiðla var yfirleitt alltaf fyrsta spurningin: Fer Ísland á hausinn, eða hvenær fer Ísland á hausinn? Þetta var svona og það var ástæða fyrir því. Það er ekki sjálfgefið að við séum komin þangað sem við erum komin og nú er þessi umræða þögnuð. Enginn reynir að halda því fram í dag að Ísland muni ekki hafa sig út úr þessum erfiðleikum. Er það ekki árangur og var það sjálfgefið? Nei, það var ekki sjálfgefið. Við þurfum ekki að fara langt til að sjá að ef menn takast ekki á við svona vanda af einurð getur farið mjög illa.

Mörg stór og mikilvæg mál hafa eðlilega verið til umræðu í íslensku samfélagi. Það mun því taka tíma að vinna úr því sem hér gerðist, félagslega, pólitískt, menningarlega og andlega. Svo stórir voru þeir atburðir, svo djúp eru sárin að þau þurfa tíma til að gróa. Eigum við þá ekki að reyna að hjálpast að við það að taka þannig á málum og vinna okkur út úr þeim?

Ég sakna þess nokkuð að ekki sé rætt meira um samfélagsgerðina, um jöfnuð og hvernig við viljum hafa þetta. Þar hefur mikið áunnist borið saman við þann ójöfnuð sem fór vaxandi ár frá ári á tímum ofurlaunanna og skattalækkana á þá ríku. Því hefur þessi ríkisstjórn öllu snúið við. Það er meiri jöfnuður og sanngjarnari og réttlátari dreifing byrðanna á Íslandi í dag en var fyrir nokkrum árum. Við eigum erfitt. Já, við eigum erfitt. Það stóð aldrei annað til en að þetta yrði erfitt þegar svona stórt og mikið áfall gengur yfir. Nú verða og eiga þeir sem hafa burði til þess að leggja sitt af mörkum.

Það er ánægjulegt að heyra menn tala um bankana og gróða þeirra. Það mun væntanlega ekki standa á Sjálfstæðisflokknum að hjálpa okkur við að koma fjársýsluskattinum í gegn þannig að hluti af gróða fjármálakerfisins gangi til þess að létta okkur róðurinn.

Þessi ríkisstjórn hefur fyrir utan það að ná miklum árangri í glímu við nánast fordæmalausa erfiðleika í ríkisfjármálum og efnahagsmálum og fyrir utan það að auka jöfnuð í samfélaginu, náð fram mörgum mikilvægum umbótamálum á fjölmörgum sviðum sem oft vill gleymast, þ.e. á sviði mennta, velferðar, mannréttinda og umhverfismála svo nokkur dæmi séu tekin. Það er langur listi umbótamála sem komist hefur í gegn núna á þessu kjörtímabili og Alþingi hefur líka unnið mikið starf, svo eitthvað sé sagt gott um það. Við höfum innleitt ein hjúskaparlög. Við höfum gert kaup á kynlífsþjónustu ólögleg. Við höfum eflt aðgerðir gegn mansali. Við höfum fullgilt Árósasamninginn, friðlýst svæði, unnið að rammaáætlun, sett lög um íslenska tungu og stöðu táknmálsins og þannig gæti ég lengi talið.

Þessi ríkisstjórn hefur með farsælum hætti leitt til lykta stórmál í samskiptum ríkis og sveitarfélaga, fært málefni fatlaðra yfir með velheppnuðum hætti og gengið frá samkomulagi um tónlistarfræðslu á framhaldsskólastigi, mál sem voru afvelta árum saman hjá fyrri ríkisstjórnum sem flutu sofandi að feigðarósi.

Utanríkisráðherra hefur nú með fullum stuðningi ríkisstjórnarinnar lagt fram þingsályktunartillögu um viðurkenningu á sjálfstæði Palestínu. Þeirri tillögu fagna ég sérstaklega og þakka utanríkisráðherra, Össuri Skarphéðinssyni, sem á hrós skilið fyrir vasklega framgöngu í því máli.

Í okkar raunum og búsorgum hér uppi á Íslandi er okkur stundum hollt að hugsa til þess sem fólk annars staðar á hnettinum þarf að búa við. Það er löngu, löngu kominn tími til þess að alþjóðasamfélagið þvoi þann smánarblett af samvisku sinni hvernig farið var með Palestínumenn og þeir fái nú í krafti sjálfsákvörðunarréttar síns að stofna sjálfstætt ríki í sínu eigin föðurlandi og þó fyrr hefði verið.

Þó að hér sé kominn viðsnúningur í efnahagslífinu og bati sé hafinn hvað sem hver segir, eigum við mikið verk að vinna að endurheimta trúnað og traust í samfélaginu. Það er okkur öllum ljóst, slíkt kemur auðvitað ekki af sjálfu sér. En reynum þá að hjálpast að við það sem þjóð. Við getum gert betur í stjórnmálunum og hér í þingsalnum, svo sannarlega. Hagsmunaaðilar geta gert betur. Fjölmiðlarnir geta gert betur. Og forseti lýðveldisins getur gert betur. Við skulum leggja áherslu á það sem sameinar okkur og sameinast um það mikilvæga verkefni að klára það og fara með Ísland út úr kreppunni. Þetta er í okkar höndum. Við höfum allt sem við þurfum til þess. Það erum við ein sem getum gert þetta og við ein sem getum klúðrað því. Það ætlum við ekki að gera.

Við þá menn sem bera dag hvern fóður í sundurlyndisfjandann segi ég þetta: Látið það vera. Hafið ykkur í burtu ef þið hafi ekkert þarfara fram að færa. Þessi þjóð þarf á öllu öðru en því að halda að sundra henni þegar mest á ríður við að hafa okkur endanlega út úr þessum erfiðleikum. Það munum við gera, góðir Íslendingar. Góðar stundir og gleðilegan vetur. Hann verður miklu betri en ætla mætti af þingupphafinu.