140. löggjafarþing — 2. fundur,  3. okt. 2011.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[20:51]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Forseti. Kæru landsmenn. Skoðanakannanir sýna að djúp gjá hefur myndast á milli þjóðar og þings. Örfáir landsmenn treysta þingmönnum og ríkisstjórninni. Ekkert gefur til kynna að traust á þeim sem á Alþingi starfa sé eitthvað að aukast eftir frammistöðu okkar hér á septemberþingi. Vantraustið beinist að stjórn og stjórnarandstöðu og því verðum við öll sem hér vinnum að skoða hvernig við getum bætt störf okkar og samvinnu.

Hvernig er hægt að laga þetta og endurheimta traust? Ég held að ný þingsköp séu til bóta en það er ekki nóg að fá nýjar starfsreglur á Alþingi. Bankarnir höfðu t.d. mjög fínar siðareglur en það fór bara enginn eftir þeim því að menningin þar inni var að skauta á gráa svæðinu, græða, græða, græða og svindla eins og fagmenn. Já, hvernig er hægt að endurheimta þetta traust?

Úti um allan heim mótmælir fólk. Það mótmælir vegna þess að það treystir ekki kerfinu. Það hefur upplifað að kerfið er orðið svo stórt að það þjónar aðeins sjálfu sér og ef það verða kerfismistök mun kerfið gera allt sem það getur til að verja sjálft sig en ekki þá sem brotið hefur verið á.

Úti um allan heim mótmælir fólk því að fjármagnseigendurnir, bankamafían, stjórnar samfélögunum en ekki valdhafarnir sem eru lýðræðislega kjörnir. Já, kæru landsmenn, hverjir semja lögin? Ekki er það löggjafarvaldið sem semur þau. Lögin eru samin í ráðuneytunum og þeir sem koma að því að semja þau, eins og t.d. lög um fjármálafyrirtæki, koma einmitt frá fjármálafyrirtækjunum. Hvernig fer það saman að fulltrúalýðræði á löggjafarsamkundunni sé að kljást við lagatæknimál þeirra sem eru jafnframt á launum eða hafa þegið laun frá þeim fyrirtækjum sem á að koma böndum á með lagasetningu?

Það hlýtur að vera skýlaus krafa okkar á þinginu að við fáum að fylgjast með lagasetningu á frumstigum og að vita nákvæmlega hver skrifar hvaða lagabálk sem fer í gegnum Alþingi. Það hlýtur að vera skýlaus krafa að þeir landsmenn sem það vilja fái aðgengi að lagaskrifum á frumstigi til að geta veitt aðhald áður en þau fara hingað inn. Með þannig opnun á kerfinu er hægt að byggja nauðsynlegt traust og alvöru gagnsætt samfélag sem við verðum að koma hér á til að byggja upp samfélag heilinda og heiðarleika.

En það þarf auðvitað meira til, og minni ég á skrif hæstv. forsætisráðherra sem hún birti í dagblaði um árið og talar fyrir því að afnema beri verðtrygginguna. Til að skapa traust getur hæstv. forsætisráðherra t.d. sýnt í verki að hún ætli að láta sinn gamla draum verða að veruleika og jafnframt verða við kröfu 34.000 landsmanna sem settu nafn sitt við kröfu Hagsmunasamtaka heimilanna um að afnema verðtrygginguna. Krafan hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Í nafni almannahagsmuna krefjumst við undirrituð almennra og réttlátra leiðréttinga á stökkbreyttum lánum heimilanna og afnáms verðtryggingar.

Hafi stjórnvöld ekki orðið við þessari kröfu fyrir 1. janúar 2012 jafngildir undirskrift mín kröfu um þjóðaratkvæðagreiðslu um kröfugerðina.“

Forsætisráðherra tók við undirskriftalistanum stuttu eftir að þing var sett á laugardaginn með þeim orðum að þetta yrði sett á forgangslista ríkisstjórnar á fundi á morgun. Hvergi get ég séð á málefnalista ríkisstjórnarinnar að bregðast eigi við þessum kröfum. Þá á jafnframt að setja saman enn eina nefndina til að bregðast við þeim forsendubresti sem hér varð við hrunið og ekki hefur tekist að leiðrétta.

Kæru landsmenn. Þeir einstaklingar sem sýndu hvað mesta ráðdeild og pössuðu upp á fjármál sín hafa ekki fengið neina leiðréttingu. Það að horfa upp á ævisparnað sinn sem settur hefur verið í húsnæðiskaup fuðra upp og heyra á sama tíma í fréttunum að 50 fyrirtæki hafi fengið afskrifað milljarð hvert fær auðvitað jafnvel rólyndasta fólk til að finna til gremju og reiði gagnvart þeim sem sitja við völd. Sú gremja braust út að einhverju leyti við þingsetningu en miklu fleiri voru þó samankomnir við þetta hús sem ég stend í með fjölskyldum sínum og hlýddu á ræður og frábæra tónlist. Þetta fólk fór síðan heim og tók ekki eftir neinu af því sem síðar varð aðalfrétt fjölmiðla. Ekki einu orði var eytt á friðsamleg mótmæli sem fóru fram á sama tíma og sömu stundu og írafárið við þinghúsið átti sér stað í fjölmiðlum landsins. Stöð 2 gekk meira að segja svo langt að skrifa það inn í frétt sína að 4.000 manns hefðu kastað eggjum á þingið sem er auðvitað skemmtilega dramatískt en er ekkert annað en ósannindi. Það voru um það bil 20 manns sem köstuðu eggjum en ekki 4.000. Þá værum við enn þá að þrífa þetta hús.

Óvönduð vinnubrögð og hálflygar fjölmiðla í tengslum við mótmæli er svo sem ekki neitt nýmæli og þurfa þeir sem mæta á mótmæli oft að sitja undir lygum og rógburði. Fólkið sem kom á Austurvöll við þingsetningu mætti auðvitað á sínum forsendum sem voru æðifjölbreyttar. Ég heyrði frá mörgum þarna úti að þeir væru komnir til að sýna okkur sem hér störfum að þeim ofbýður forgangsröðunin og vinnubrögðin hér inni. Ég heyrði jafnframt í mörgum sem komu til taka undir kröfur Hagsmunasamtaka heimilanna og komu með friði og fóru í friði.

Eitt af því sem verður að taka á er sú ógæfulega staða að nánast enginn hefur þurft að sæta ábyrgð á því tjóni sem þetta samfélag hefur orðið fyrir og því verður að linna, að þeir sem allir vita að eru orsakavaldar hrunsins fái enn að fjárfesta hérlendis, reka fjölmiðlasamsteypur og séu á sama tíma enn að maka krókinn á kostnað skattborgara.

Meira þarf til, kæru landsmenn. Ljóst er að þeir sem eru við völd eru allir af vilja gerðir til að láta þarfir ykkar verða að forgangsmáli. Til að sýna þeim stuðning þarf fólk að sýna þennan stuðning í verki með því t.d. að þrýsta á að undirskriftalistinn frá hagsmunasamtökunum endi ekki ofan í skúffu og að úrvinnsla hans verði ekki enn ein barbabrellan.

Kannski á ríkisstjórnin við ramman reip að draga því að ljóst er að núverandi kerfi þjónar ekki lengur hagsmunum almennings. Þess vegna þurfa allir inni á Alþingi að hafa hugrekki til að fara nýjar leiðir og kalla eftir stuðningi almennings til þeirra verka, hugrekki til að breyta og stokka upp í efnahagskerfinu og stjórnsýslunni. Hugrekki til að afnema bankaleyndina. Hugrekki til að vinna með öðrum en vinum og vandamönnum og flokkssystkinum. Hugrekki til að tryggja að þeir sem bera ábyrgð á hruninu axli ábyrgð. Ef það er ekki hægt verðum við að hafa hugrekki til að viðurkenna að samfélagsgerðin er ónýt því að þeir sem hafa völd og peninga þurfa ekki að lúta sama réttarfari og samfélagslegri ábyrgð og almennir borgarar. Hugrekki til að viðurkenna blóðskömm íslenskrar stjórnsýslu. Hugrekki til að setja almenning á oddinn í stað fjármálastofnana. Hugrekki til að vinna saman að því að finna lausnir. Hugrekki til að láta dóm þjóðarinnar ráða varðandi nýju stjórnarskrána. Hugrekki til að horfast í augu við reiðina og biturð svo margra í samfélaginu í garð okkar sem vorum kjörin á þing.

Kæru landsmenn. Við í Hreyfingunni höfum stundað annars konar vinnubrögð á þinginu en almennt tíðkast og vonumst til þess að þau vinnubrögð verði eitthvað sem aðrir temja sér. Við höfum alltaf málefnin að leiðarljósi og vinnum jafnt með minni hluta og meiri hluta út frá málefnum þeim sem tengjast þeirri stefnu sem við vorum kjörin á þing til að koma í verk. Hjá okkur er ekkert flokksræði og hverjum og einum þingmanni er frjálst að fylgja sannfæringu sinni þó að hún stangist á við skoðanir hinna. Við höfum einfalda stefnu þar sem lýðræðisumbætur eru áberandi en jafnframt má finna þar kröfur um almennt réttlæti fyrir þá landsmenn sem fengu óréttlátar skuldabyrðar í fangið í eftirmálum hrunsins.

Í vetur munum við m.a. vinna að eftirfarandi málum: Flytja þingsályktunartillögu um meðferð á frumvarpi til nýrrar stjórnarskrár, frumvarp um þjóðaratkvæðagreiðslur og kvótafrumvarpið sem við lögðum fram á síðasta þingi. Þá munum við flytja þingsályktunartillögu um rannsókn á starfsháttum forsætisráðuneytis, fjármálaráðuneytis, viðskiptaráðuneytis og Seðlabanka í aðdraganda hrunsins og eftirmálum þess. Við munum leggja mikið kapp á að tillögur að nýrri stjórnarskrá rati í þjóðaratkvæðagreiðslu til að Alþingi fái skýra leiðsögn um hver eindreginn vilji þjóðarinnar er varðandi nýjan samfélagssáttmála. Ef þingið ber gæfu til að vinna úr tillögum stjórnlagaráðs á þann hátt að almenn sátt sé með þá vinnu og niðurstöðu held ég að grunnurinn að hinu nýja Íslandi sé loks orðinn traustur.

Kæra þjóð. Til þess að okkur hér á þinginu auðnist að fylgja betur því sem þið viljið frá okkur þurfum við aðhald og áreiti. Takk fyrir hávaðann úti núna, takk fyrir öll bréfin, mótmælastöðurnar, greinarnar og nöfnin ykkar á undirskriftalistunum. Það er staðreynd að til þess að lifa í því samfélagi sem mann dreymir um að búa í þarf maður að taka þátt í að búa til þann draum. Það kostar ekki mikla vinnu að taka þátt en það er staðreynd að þeir sem breytt hafa heiminum hafa verið einstaklingar með ríka réttlætiskennd. Hættum að berjast gegn hvert öðru og finnum leiðir til að vinna saman innan þings sem utan. Munum að 21. öldin verður öld almennings, öldin ykkar.