140. löggjafarþing — 2. fundur,  3. okt. 2011.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[21:07]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U):

Frú forseti. Kæru landsmenn. Mér finnst margir ræðumenn í kvöld vera ansi brattir í því að túlka mótmælin, túlka trommusláttinn sem við heyrum fyrir utan, tunnusláttinn. Ég er ekki viss um að ég viti alveg nákvæmlega hverju fólk er að mótmæla. Við höfum þó séð undirskriftalista frá Hagsmunasamtökum heimilanna og ég tek hann vissulega alvarlega. En mig langar í raun að velta því fyrir mér, vegna þess að ég tel að við þurfum að gera það öll: Út af hverju mundum við mótmæla? Út af hverju mundi ég sjálfur standa á Austurvelli og berja tunnu? Ég get alveg rakið hvað það er sem ég tel að ég þyrfti að berja tunnu út af og ég held að það sé mikilvægt að rekja það.

Ég gæti vissulega staðið á Austurvelli núna og barið tunnu út af fjármálakerfinu. Mér fannst ég upplifa það í eftirleik hrunsins að við ætluðum öll að vera sammála um að byggja hér upp öðruvísi fjármálakerfi en það sem hrundi. Ég upplifi á mínu eigin skinni vissar áhyggjur af því að það fjármálakerfi sem er að rísa sé ekkert öðruvísi, þannig að ég hugsa að ég gæti barið í tunnu út af því og kannski extrafast út af bágborinni skuldastöðu míns sjálfs.

Ég mundi líka berja í tunnu út af því að ég upplifi möguleika á því að ákveðin fyrirheit um nýja stjórnskipan, nýja stjórnarskrá í þessu landi, séu hugsanlega að renna út í sandinn. Það var lagt upp í ákveðna ferð, að skrifa nýja stjórnarskrá í samvinnu við fólkið í landinu. Haldinn var þjóðfundur og á hann mættu þúsund manns. Skipuð var stjórnlaganefnd sem fór yfir þjóðfundinn og vann tillögur. Lýðræðislega kjörið stjórnlagaráð er búið að skila tillögum til okkar og ég hugsa að ég mundi berja í tunnu sem hvatningu til okkar um að fara ekki með þetta fallega og vonmikla ferli aftur á byrjunarreit.

Ég mundi berja í tunnu út af ESB. Ég upplifi það sem gríðarlega mikilvæga ákvörðun sem við tókum hér og verðum að standa við að sækja um aðild að ESB og reyna að landa góðum samningi sem þjóðin mundi síðan taka afstöðu til. Ég mundi berja í tunnu út af ákveðinni reiði sem ég upplifi gagnvart þeirri forræðishyggju sem birtist mér í máli margra alþingismanna sem vilja einfaldlega hætta við þetta ferli, taka þennan rétt af fólkinu. Ég mundi berja í tunnu út af því. Ég hugsa að ég mundi líka berja í tunnu út af mikilvægi grænnar atvinnuuppbyggingar. Mér finnst við hafa markað þá stefnu í þessum sal að við ætluðum að byggja upp grænt fjölbreytt atvinnulíf sem mundi skapa fullt af störfum á grundvelli hreinnar orku og annarra möguleika sem við höfum. Samt tala menn ítrekað hér um álver. Við vitum að ef við förum í tvö álver verður ekkert af þessari grænu atvinnuuppbyggingu og ég mundi berja í tunnu út af því.

Ég mundi berja í tunnu út af erlendum fjárfestingum. Mér finnst eins og að hér ætti að ríkja samhljómur um að vilja auka erlenda fjárfestingu en samt fer þingheimur alltaf á einhvern ótilgreindan hátt á límingunum þegar einhver útlendingur brosir til okkar. Ég mundi berja í tunnu út af því. Ég mundi líka berja í tunnu út af því að við virðumst ekki geta ákveðið okkur, þingheimur, hvað við ætlum að gera við gjaldmiðilinn okkar. Ég upplifi hann sem eitt stærsta vandamál íslensks samtíma. Við getum ekki haldið áfram með frjálsa krónu þannig að við verðum að hafa gjaldeyrishöft eða taka upp annan gjaldmiðil. Getuleysi Alþingis til að taka afstöðu til þessa máls er eitthvað sem ég mundi berja í tunnu út af.

Ég mundi líka berja í tunnu út af því að ég upplifi stjórnmálin einhvern veginn svo ótrúlega fjarlæg lífinu í samfélaginu. Ég upplifi það eins og að þessi 100 ára gamla hagsmunapólitík sem við stundum hér sé í engum tengslum við lífið eins og það er á Íslandi í dag á 21. öldinni. Ég upplifi þunga nauðsyn þess að breyta þessum stjórnmálakúltúr. Ég held að við þurfum mannlegri pólitík. Kannski ættum við að hefja hvert einasta þing hér eftir á því að berja öll í tunnur saman og segja upphátt hvað það er sem gerir okkur reið og reyna síðan að leysa það vegna þess að hér höfum við vissulega aðstöðuna til þess. Þetta ættum við kannski að gera.

Ég fór að sjá Galdrakarlinn í Oz um helgina. Það leikrit er einn samfelldur boðskapur til krakka og fullorðinna um gildi hins mannlega, þess sem við þurfum að endurreisa í þessum sal. Það er nefnilega þannig að galdrakarlinn í Oz er loddari, hann hefur engar lausnir. Þetta sem gildir er að nota heilann, fylgja hjartanu og vera hugrakkur.