140. löggjafarþing — 2. fundur,  3. okt. 2011.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[21:20]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Góðir Íslendingar. Þrjú ár eru liðin og við erum alltaf að tala um það sama. Enn er verið að takast á um sömu málin, enn vex vandi heimilanna, enn eykst brottflutningur fólks og enn er tekist á um og þvælst fyrir nauðsynlegri atvinnuuppbyggingu í landinu. Okkur miðar því miður ekki nóg áfram. Það verður ekki haldið lengra á þeirri ófærubraut sem stjórn landsins er á.

Margoft hafa aðilar vinnumarkaðarins og önnur hagsmunasamtök reynt að koma tauti við ríkisstjórnina en hafa nánast jafnoft verið svikin þegar á hólminn er komið. Um það ber stöðugleikasáttmálinn, heitinn, vitni. Um það bera niðurstöður kjarasamninga og loforð ríkisstjórnarinnar í tengslum við þá vitni. Um það bera orð forseta ASÍ í tengslum við fjárlagafrumvarpið núna vitni og til viðbótar hafa samtök atvinnulífsins gefist endanlega upp á samstarfi við þessa ríkisstjórn. Viðbrögð forsætisráðherra við þeirri niðurstöðu voru forustumanni ríkisstjórnar ekki til sóma og lýsir því í hvers konar ógöngum stjórn efnahagsmála er.

Ekki einasta hefur íslenska þjóðin lent í djúpri efnahagslegri kreppu sem ekki sér fyrir endann á, heldur blasir við að hér er djúp og alvarleg pólitísk kreppa. Ríkisstjórnin hangir á einum manni og er í reynd minnihlutastjórn sem þarf að semja við sjálfa sig í gegnum hvert einasta mál. Stuðningur við ríkisstjórn virðist skilyrtur af hálfu einstakra þingmanna um hvað megi gera og hvað megi ekki gera.

Eitt brýnasta verkefnið í atvinnuuppbyggingu eru virkjunarframkvæmdir í neðri hluta Þjórsár og það blasir við að ríkisstjórnin hefur ekki fullan stuðning innan sinna raða við það þjóðþrifamál. Allt er þetta til að auka á pólitískan óstöðugleika og dýpka vandann verulega. Við sjáum teikn á lofti um alvarlega efnahagsþróun í heiminum og við megum engan tíma missa við að koma okkur upp úr þessum vanda.

Góðir landsmenn. Hæstv. forsætisráðherra sagði þegar hún var spurð um mótmælin síðastliðinn laugardag að fólk þyrfti að sýna því skilning að ríkisstjórnin væri að fást við erfið en mikilvæg verkefni. Hæstv. fjármálaráðherra talaði í svipuðum tón og sagði að hér mætti ekki tala allt niður og í raun væri verið að gera marga góða hluti. Það væri ráð fyrir ríkisstjórnina að fara yfir þennan verkefnalista. Hvar eru þessi brýnu mál? Það er ekki forgangsatriði að umbylta stjórnarskránni þó svo að um tíma hafi nær allur tími ríkisstjórnarinnar farið í það verkefni. Það er ekki nauðsynlegt að sækja um aðild að Evrópusambandinu og leggja alla stjórnsýsluna undir í það verkefni. Það er engin þörf á því að umbylta fiskveiðistjórnarkerfinu og ráðast þar með á þá grein sem hvað best stendur í því að endurreisa hagkerfið. Þetta eru bara nokkur dæmi um verkefni sem ríkisstjórnin telur mikilvæg en snerta lítið hag heimilanna. Ríkisstjórnin er ráðalaus þegar kemur að skuldavanda þeirra.

Á meðan venjulegir launþegar berjast fyrir því að láta enda ná saman, m.a. vegna mikilla skattahækkana, heldur ríkisstjórnin sér við gæluverkefni og boðar frekari skattahækkanir. Á meðan þingmenn meiri hlutans fá að leika lausum hala í sífelldum árásum á fiskveiðistjórnarkerfið halda allar útgerðir að sér höndum, fjárfesta ekki í nýjum tækjum og allt virðist staðnað í íslenskum sjávarútvegi. Fjölmargir óhæfir sérfræðingar og raunar allir þeir sem skiluðu inn áliti um frumvarp ríkisstjórnarinnar um sjávarútvegsmál hafa gagnrýnt það og sagt það stórskaða þessa mikilvægu atvinnugrein. Ríkisstjórnin skellir skollaeyrum við viðvörunum sérfræðinga ef álit sérfræðinganna hentar ekki málstað hennar.

Góðir Íslendingar. Margir furða sig á lítilli samstöðu á Alþingi. Það er rétt að hluta til og stundum gengur illa að ná samstöðu í þinginu. Á því eru þó skýringar. Sjálfstæðisflokkurinn getur ekki í nafni sátta og samlyndis tekið þátt í skattahækkunum og auknum álögum á fjölskyldur og fyrirtæki. Að sama skapi getur Sjálfstæðisflokkurinn heldur ekki stutt aðgerðir ríkisstjórnarinnar sem draga og hamla vöxt í atvinnulífinu. Við getum ekki og viljum ekki taka þátt í því að stórskaða eina arðsömustu atvinnugrein Íslendinga. Við getum ekki tekið þátt í því að hindra atvinnuuppbyggingu víða um land til þess eins að ná samstöðu við öfgafull sjónarmið Vinstri grænna og andúð þeirra á atvinnulífinu. En við skulum í nafni sátta og samlyndis vinna að því hvernig bæta má hag heimilanna, hvernig auka má kaupmátt, hvernig launþegar geta látið enda ná saman, hvernig atvinnulífið getur byggt sig upp á ný, hvernig minnka megi atvinnuleysi og byggja hér upp öflugt hagkerfi.

Það er skylda allra hér inni að leggja fram góðar og málefnalegar tillögur að úrbótum. Það höfum við sjálfstæðismenn gert allt frá kosningum 2009. Við munum leggja fram slíkar tillögur áfram. En það er einnig skylda þeirra sem stýra landinu að hlusta eftir tillögum sem eru til þess fallnar að bæta ástandið. Fram til þessa hefur ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur lítið viljað með slíkar tillögur gera, því miður. Sé til þess vilji hjá ríkisstjórninni er Sjálfstæðisflokkurinn tilbúinn til að vinna með meiri hlutanum að tillögum sem vinna að því að bæta hag heimila og fyrirtækja, en ef ríkisstjórnin ætlar sér að halda áfram linnulausum árásum á atvinnulífið, leggja stein í götu uppbyggingar og hafa að engu þarfir heimilanna fyrir aukinn kaupmátt og aukna velmegun, mun Sjálfstæðisflokkurinn hér eftir sem hingað til taka til varna fyrir heimili og fyrirtæki. — Góðar stundir.