140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[11:07]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég deili áhyggjum hæstv. fjármálaráðherra af því með hvaða hætti við náum tökum á skuldastöðu og skuldsetningu ríkissjóðs. Ég hjó eftir því í gær að hæstv. ráðherra nefndi í ræðu sinni eftir stefnuræðu hæstv. forsætisráðherra að fyrir forgöngu ríkisstjórnarinnar hefði tekist að forða þjóðargjaldþroti. Ef sú er raunin tek ég að sjálfsögðu undir ánægju hæstv. ráðherra varðandi þann þátt málsins, enginn óskar sér þess. Öll getum við fagnað því ef árangur er að nást. Það dregur hins vegar ekki úr áhyggjum mínum varðandi þá staðreynd sem blasir við í þeim gögnum sem fyrir þingið eru lögð í því frumvarpi sem liggur fyrir að skuldir ríkissjóðs vaxa og nettóskuldir eru áfram á uppleið því næst út allan spátímann til ársins 2015 samkvæmt þeirri greinargerð sem fylgir fjárlagafrumvarpinu.

Ég hefði viljað inna hæstv. ráðherra eftir því í hverju hann telur þær ráðstafanir fyrst og fremst hafa falist sem forðuðu okkur af þeirri leið sem við stefndum í að hans mati. Á hvaða sviðum voru þær ákvarðanir teknar sem beindu okkur inn á réttar brautir?

Í annan stað vildi ég grennslast fyrir um skilning hæstv. ráðherra á þeim mismun sem kemur fram í hagspá Hagstofunnar frá því í júlí sem spáir 3,1% hagvexti á komandi ári, en spá Seðlabanka Íslands gerir ráð fyrir 1,9% í hagvexti. Ég vil gjarnan heyra skilning hæstv. ráðherra á því í hverju sá mismunur liggur.