140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[11:13]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi hagvaxtarspár þá skoðum við þær að sjálfsögðu. Ég reyni að rýna ekki bara í spárnar heldur undirgögnin undir þeim til að átta mig á því hvað sé vel rökstutt og ígrundað og hvað ekki. Ef við tökum allar hagspár sem fyrir liggja yfir tímabilið 2011 til og með 2013 eru þær að meðaltali mjög svipaðar og hljóða upp á 2,5, 2,7–3% hagvöxt að meðaltali á tímabilinu. En það er hins vegar rétt að í einstökum spám er talsvert frávik í því hvernig hagvöxturinn dreifist. Seðlabankinn er með bjartari spá fyrir þetta ár, lakari spá fyrir næsta ár og aftur bjartari fyrir 2013. En það er meira jafnvægi í spánum hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, Hagstofunni og fleiri aðilum.

Ég vil leyfa mér að bæta því við að ég held að sú ákvörðun nýrrar ríkisstjórnar að ráðast strax í aðgerðir á sviði ríkisfjármála á miðju ári 2009, aðgerðir sem síðan hafa fylgt okkur og gert sitt gagn 2010 og 2011, eigi stóran þátt í að staðan er jafnmikið betri og raun ber vitni.