140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[11:17]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vísa til þess að allar aðgerðir þessarar ríkisstjórnar í ríkisfjármálum frá miðju ári 2009, aftur í fjárlögum fyrir 2010, aftur í fjárlögum fyrir 2011 hafa haft það markmið bæði á tekju- og útgjaldahlið að hlífa velferðarútgjöldum við niðurskurði og afla tekna þannig að hinir tekjulægstu yrðu ekki fyrir skattahækkunum og það hefur gengið eftir. Sparnaðurinn á almennum rekstri er meira en tvöfalt meiri en það sem lagt hefur verið á velferðarkerfið. Það eru staðreyndir sem gögn á borðum sýna svo ekki verður um deilt. Tekjuöflunin hefur farið fram fyrst og frest í gegnum þrepaskipt tekjuskattskerfi þar sem meira er lagt á hæstu laun í gegnum hækkun fjármagnstekna, fjármagnstekjuskatt með frítekjumarki fyrir lítinn sparnað með því að hækka skatta á ríkasta hóp samfélagsins, auðlegðarskatt, með skattahækkunum á þau fyrirtæki sem búa við góða afkomu og greiða tekjuskatt vegna hagnaðar o.s.frv. Aðgerðirnar hafa verið svona á báðar hliðar. Það er það sem ég er að tala um þegar ég fullyrði, stend við það og get sannað það að þessar aðgerðir hafa allar verið því marki brenndar að reyna að fara eins mjúklega með velferðarsamfélagið í gegnum þessa erfiðleika og kostur er.

Auðvitað hafa allir orðið fyrir áhrifum og auðvitað er þetta erfitt, hv. þingmaður. Nema hvað? Hélt Framsóknarflokkurinn að þetta yrði auðvelt? Lásu þeir þannig í spilin 2009 eða 2008 að við stæðum bara frammi fyrir einhverju smáverkefni?

Varðandi fjárfestingar hefur þessi ríkisstjórn komið starfhæfu fjármálakerfi á lappirnar. Er það ekki forsenda þess að hér geti þrifist atvinnulíf? Við höfum náð vöxtum niður úr 18% í 4,5%. Við höfum náð verðbólgu niður úr 18% í um 5%. Við höfum innleitt stöðugleika í hagkerfinu og unnið úr þessum málum þannig að nú eru að skapast ágæt skilyrði til hagvaxtar og fjárfestingar, enda eru þær (Forseti hringir.) teknar að aukast. Almenn atvinnuvegafjárfesting mun væntanlega aukast um 15–18% á þessu ári.