140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[11:20]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að fyndnasta hugmyndin sem ég hef heyrt í þessum efnum hafi verið sú að það ætti bara ekki að greiða atvinnuleysisbætur heldur nota þær í að byggja álver eða virkja. Ég sá einhvern vera að æfa sig með tölur og það mátti skilja það svo að viðkomandi teldi að það hefði átt að nota atvinnuleysisbæturnar í að virkja en ekki í að greiða atvinnuleysisbætur. Þannig samfélag ætlum við ekki að hafa á Íslandi. Við ætlum líka að styðja við bakið á þeim sem missa vinnuna og vildum gjarnan geta gert betur við þá ef við hefðum ráð á því.

Að sjálfsögðu eru útgjöld til atvinnuleysisbóta útgjöld á sviði velferðarmála. En það á líka skoða hversu tiltölulega lítið hefur verið snert við öðrum bótakerfum og undirstöðuútgjöldum á sviði margra annarra þátta velferðarkerfisins. Kaupmáttur tekjulægstu hópa samfélagsins hefur varist langbest í gegnum þessa dýfu. Það sýna rannsóknir fræðimanna, það sýnir álagning ríkisskattstjóra o.s.frv.

Varðandi fjárfestingarnar eru þær teknar að aukast m.a. á grunni þess að það sem til þurfti hefur verið gert, (Forseti hringir.) að koma aftur á starfhæfu fjármálakerfi, koma á stöðugleika, lækka vexti og verðbólgu til að skapa lífvænlegt umhverfi fyrir atvinnurekstur í landinu.