140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[13:42]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er ekki miklu við það að bæta sem þegar hefur komið fram en ég vil að sjálfsögðu leggja áherslu á að það er mikilvægt að fjárlaganefnd komi að þessum verkefnum og fái allar upplýsingar um hvernig að þessu er staðið. Ég mæli með því að þeir sérfræðingar sem vinna með þetta í fjármálaráðuneytinu og Seðlabankanum fundi sérstaklega með nefndinni og fari yfir og kynni henni þá vinnu sem þarna hefur verið unnin.

Það er alveg rétt sem fram kom í máli okkar að þetta var kannski ekki mikið forgangsverkefni á ákveðnu árabili, skuldirnar voru tiltölulega litlar, útgáfur ríkissjóðs litlar og ekki staðið í miklum erlendum lántökum eða útgáfum. Reyndar voru þeir markaðir lokaðir fyrir ríkinu árum saman þannig að ekki reyndi á það.

Seðlabankinn sá að mestu leyti um þessi mál á grundvelli samnings milli fjármálaráðuneytisins og Seðlabankans en nú er að verða þar nokkur breyting á því að ein af þeim ráðleggingum sem við höfum fengið er að ráðuneytið verði sjálft að styrkja stöðu sína í þessum efnum enda ber það ábyrgðina þegar upp er staðið. Við höfum tekið það (Forseti hringir.) til eftirbreytni og reynum að efla getu ráðuneytisins til að hafa forustuna í þessum málum.