140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[13:43]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka nýkjörnum formanni fjárlaganefndar framsögu hennar og óska henni til hamingju með embættið. Ég óska henni sömuleiðis velfarnaðar í störfum og vænti þess að samstarfið verði hið besta eins og það var við fráfarandi formann sem ég vil jafnframt þakka gott samstarf á starfstíma hennar.

Ég hjó eftir því að hv. þingmaður nefndi áhyggjur sínar af skuldsetningu ríkissjóðs og ég deili þeim áhyggjum með hv. þingmanni. Ef ég man rétt nefndi hún að skuldir ríkissjóðs yrðu væntanlega um 1.400 milljarðar í lok árs 2012 samkvæmt fylgiriti með frumvarpinu. Ég held ég fari rétt með að skuldir ríkissjóðs í október 2010 hafi verið um 1.300 milljarðar, þar af 930–940 milljarðar í íslenskum krónum og afgangurinn í erlendum gjaldmiðli. Ég hef af því verulegar áhyggjur vegna þess að komið hefur í ljós að nettóskuldir ríkissjóðsins aukast ár frá ári.

Af því tilefni langar mig að heyra skoðanir hv. þm. Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur á þeirri staðreynd sem fyrir liggur í fjárlögum núna að við erum með ákveðin verkefni í bígerð, þó að þeirra sé ekki allra getið, sem ekki munu koma fram á efnahagsreikningi ríkissjóðs. Svo ég verði skýrari í orðum á ég þar við byggingu Landspítala – háskólasjúkrahúss, fangelsis og hjúkrunarheimila. Það eru allt framkvæmdir sem eru utan efnahagsreiknings. Hver er afstaða hv. þingmanns til þeirra verkefna? Er ekki æskilegt að taka þær inn á efnahagsreikning ríkissjóðs (Forseti hringir.) þannig að við höfum heildaryfirlit yfir þau mál?