140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[13:50]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir óska Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur til hamingju með að vera orðin formaður fjárlaganefndar og við sama tækifæri þakka ég Oddnýju G. Harðardóttur ánægjulegt samstarf á sviði fjárlaganefndar. Ég verð samt að segja að ég hef áhyggjur af tíðum mannabreytingum í formennsku fjárlaganefndar. Í fjárlaganefnd fjöllum við um flókin úrlausnarefni sem varða ríkisreikning og ég hef tekið eftir því að það tekur fólk svolítinn tíma að setja sig inn í málin sem þar eru til umræðu, en ég veit að hv. þingmaður mun gera það mjög fljótlega.

Það sem ég hef áhyggjur af er agi í ríkisrekstri, agi í ríkisfjármálum. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lagði til á árinu 2009 að við mundum gjörbylta allri fjárlagavinnu og kom m.a. fram að valdið yrði að koma frá löggjafarvaldinu en grunnurinn að fjárlögunum ætti að koma frá framkvæmdarvaldinu.

Ég er einn af þeim sem eru afar ósáttir við nýja tilhögun safnliða og hef margoft lýst þeirri skoðun minni í fjárlaganefnd. Mér heyrðist á hv. þingmanni að hún segði að samstaða hefði náðst um málið í fjárlaganefnd. Ég var ekki hlynntur því og hef miklar áhyggjur af því hvernig þessum verkefnum reiðir af. Við erum að tala um gríðarlega mörg og mikilvæg verkefni úti um allt land og það var góð ástæða fyrir því á sínum tíma að fjárlaganefndin tók þessi málefni yfir. Ég er reiðubúinn að leggja á mig alla þá vinnu sem felst í því að fara vel yfir þetta (Forseti hringir.) í samráði við færustu sérfræðinga, en ég mundi vilja fá kannski skýrari svör um það hvernig hátta eigi þessum málum (Forseti hringir.) í fjárlagavinnunni.