140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[13:54]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það stenst að mínu mati enga skoðun að það auki á gegnsæi að færa þær valdheimildir sem Alþingi hefur yfir til ráðuneyta. Í rannsóknarskýrslunni var einn rauður þráður. Hann var sá að löggjafarvaldið, Alþingi, væri veikt gagnvart framkvæmdarvaldinu.

Hvað erum við að gera? Jú, við erum að færa embættismönnum í stjórnsýslunni vald til að útdeila fjármunum sem lýðræðislega kjörnir fulltrúar þjóðarinnar eiga lögum samkvæmt að úthluta. Lengi hefur verið fullyrt að hægt sé að auka eftirlit með því. Við fáum inn á borð hjá okkur skýrslur frá ríkisendurskoðanda eins og t.d. varðandi Menntaskólann Hraðbraut þar sem stendur svart á hvítu að ríkisendurskoðandi telji sig ekki geta fylgst með því sem framkvæmdarvaldið eigi að fylgjast með. (Forseti hringir.)

Það er gríðarlega alvarlegt mál og farið er í þveröfuga átt við það sem skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn leggja til.