140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[14:18]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni, talsmanni Framsóknarflokksins, fyrir ræðuna og upplýsi hann um að ég er í ágætu skapi og það er satt best að segja á flestan hátt léttara yfir mér núna en á sama tíma fyrir ári því að veruleikinn er sá að sá kaleikur sem ég bauð þá upp á í fjárlagafrumvarpi var miklum mun beiskari en það sem hér er á boðstólum.

Það sem ég vísaði til í stefnuumræðu í gær og hv. þingmaður vék að var framlag aðila til hinnar almennu umræðu eða „umræðumenningar“, ef við notum það orð. Ég stend við það sem ég þá sagði um að þar gætu allir hugsað sinn gang og lagt meira af mörkum.

Varðandi þann árangur sem náðst hefur í ríkisfjármálunum á tímanum frá 2009 þarf ekkert að deila um staðreyndir eða túlka þær. Við höfum ríkisreikning áranna 2009 og 2010 og við höfum núna áætlun fyrir útkomu ársins 2011, sem er auðvitað orðin býsna áreiðanleg þegar komið er þetta langt inn á árið og endurmatið sem þar fer fram sýnir sem betur fer að þrátt fyrir útgjöld kjarasamninga o.fl. er ekki gert ráð fyrir því að hallinn aukist nema um 3,9 milljarða kr. og verði um 42 milljarðar.

Hv. þingmaður amast heldur við því að menn noti hugtakið frumjöfnuð. Þá er mér vandi á höndum því að sú viðmiðun er mjög viðtekin og notuð í alþjóðlegum samanburði og talinn einn mikilvægasti mælikvarðinn á það hvar svona rekstur stendur fyrir utan heildarútkomuna sjálfa. Með frumjöfnuði erum við að tala um undirliggjandi rekstur ríkisins sjálfs, tekjur og gjöld vegna hins eiginlega rekstrar. Ef hann er mjög öfugur eða neikvæður, eins og hann var t.d. upp á 100 milljarða hjá okkur á árinu 2009, vantar 100 milljarða upp á að reksturinn sjálfur, áður en kemur að fjármagnshliðunum, gangi upp. Þegar það er komið í afgang (Forseti hringir.) er gríðarlega stórum áfanga náð þannig að ég bið hv. þingmann að endurskoða hug sinn til þess hvort ekki sé stundum ágætt að nota hugtakið frumjöfnuð í umræðum um þessi mál.