140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[14:20]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. fjármálaráðherra hefur komið fram í fjölmiðlum upp á síðkastið og sagt að þeim markmiðum sem hann setti sér sjálfur í júní 2009 væri náð vegna þess að frumjöfnuður væri jákvæður. Það er allt saman satt og rétt.

Það sem ég benti hins vegar á í ræðu minni er að það segir ekki nema hálfan sannleikann um stöðu íslenska ríkisins. Þegar við tökum heildarjöfnuðinn eru það eru vaxtagreiðslur sem íslenska ríkið þarf að greiða. Eins og dæmi mitt áðan af rekstri heimilisins gaf til kynna geta menn ekki skilið það út undan í hinni daglegu umræðu.

Ég benti á fleiri þætti. Jafnvel þó að frumjöfnuður hafi náðst — og ég held í sjálfu sér að það sé ekkert mikið mál að ná honum, maður fer bara í blóðugan niðurskurð og hækkar skatta þangað til frumjöfnuði er náð. Við verðum að fylgjast með fleiri þáttum, það eru til fleiri mælistikur, til dæmis mælistikur sem sem ríkisstjórnin hefur sjálf áhrif á hvort eru þjóðinni í hag. Það er í fyrsta lagi hvort okkur hefur tekist að ráða bót á verðbólgudraugnum eða þá hvort við höfum náð að koma á hagvexti. Það er enga fjárfestingu að finna, hvað þá aukinn hagvöxt í þessu fjárlagafrumvarpi og það gagnrýni ég harðlega. (Gripið fram í.)