140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[14:24]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það standi enginn hæstv. fjármálaráðherra á sporði ef horft er á færni hans í reikningskúnstum ýmiss konar. (Fjmrh.: Þetta eru bara staðreyndir.) Þetta eru staðreyndir, segir hæstv. fjármálaráðherra. Ég hef ekki dregið þær staðreyndir í efa í þessari umræðu. Ég hef hins vegar bent á að það eru aðrar tölur og aðrir mælikvarðar sem sýna svart á hvítu að árangur ríkisstjórnarinnar er ekki eins góður og af er látið.

Hæstv. ráðherra vill ekki svara mér varðandi hagvöxtinn. Hann vill ekki svara mér varðandi verðbólguna en gafst þó gott tækifæri til þess. Hann vill tala um frumjöfnuðinn vegna þess að þar eru tölur á blaði sem henta honum en sýna ekki stöðu ríkissjóðs varðandi vaxtagjöldin sem ég tel að sýni miklu betur stöðu Íslands. Staða Íslands er ekki góð og ég held að það detti ekki nokkrum heilvita manni í hug að halda því fram að ríkissjóður, sem skuldar 80% af vergri þjóðarframleiðslu og þar af skulda sveitarfélögin 20%, standi vel. (Gripið fram í.) Ég get ekki ímyndað mér það.

Við skulum líka hafa eitt í huga; bak við þær tölur sem hæstv. fjármálaráðherra vísar í er fólk og búið er skera blóðugt niður í heilbrigðiskerfinu, rústa því á margan hátt úti á landi og skattpína almenning og fyrirtæki í landinu til að ná þessum frumjöfnuði. Þarna á bak við er fólk og fyrirtæki og til að ná þessum frumjöfnuði hefur gleymst að auka hagvöxt í landinu. Hagvöxturinn gerir það að verkum að atvinnuleysi minnkar, er það ekki rétt, hæstv. fjármálaráðherra? Þessi ríkisstjórn ætlar hins vegar ekki að svara mér hvernig hún ætlar að auka fjárfestingu og hagvöxt í landinu.