140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[14:31]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður vísar í svar ríkisendurskoðanda til sín. Ég er ekki inni í þessum málum, mér er ekki kunnugt um þau samskipti sem hv. þingmaður hefur átt við eftirlitsaðila þingsins og mun því ekki tjá mig frekar um það í pontu að svo stöddu. (HöskÞ: Þú hlýtur að hafa skoðun.) Þegar ég mynda mér skoðun reyni ég að mynda hana á grundvelli greinargóðra upplýsinga og ég tel mig ekki hafa þær að svo stöddu.

Varðandi safnliðina ítreka ég það við hv. þingmann að lögbundnir sjóðir hafa ákveðið hlutverk lögum samkvæmt og eiga að úthluta fjármunum ríkisins út frá ákveðnum fyrirframgefnum markmiðum. Það sama á við um menningarráð landshlutasamtaka. Mér skilst jafnvel á hv. þingmanni að hann treysti ekki þessum aðilum til að útdeila opinberum fjármunum og telji þessum störfum betur fyrir komið innan fjárlaganefndar. Ég er eftir sem áður ósammála því.