140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[14:39]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Við höfum orðið vitni að því hvað réttar upplýsingar eru mikilvægar og það á við í dag sem endranær. Við ræðum fjárlög ársins 2012, það er í þriðja sinn sem ég tek þátt í 1. umr. um fjárlög ríkissjóðs. Ég hef ætíð hafið mál mitt um fjárlög á því að votta með einhverjum hætti hæstv. fjármálaráðherra virðingu mína fyrir þá glímu sem hann hefur þurft að eiga í varðandi fjárlögin í kjölfar hrunsins. Ég þykist vita að sú glíma hefur ekki verið auðveld og hefur kostað mikla vinnu og mikið þrek og er erfitt og flókið mál.

Að mínu viti hafa þó glímur undanfarinna ára borið keim af glímu Grettis við drauginn, þ.e. að það er erfitt að festa hönd á því sem menn fást við. Spár standast ekki, hagvöxtur stenst ekki, ýmsir undirliggjandi þættir eru öðruvísi en reiknað var með, óvæntir útgjaldaliðir skjóta upp kollinum sem setja ferlið úr sambandi, og ber að taka tillit til þess þegar menn ræða fjárlög ársins.

Við erum engu að síður, nú þremur árum eftir hrunið, föst að því er virðist í einhvers konar vítahring skattahækkana og niðurskurðar sem eru til þess gerð að greiða afborganir og vexti af því sem mér sýnist í fjárlagafrumvarpinu vera síhækkandi skuldir því að lántökur umfram afborganir á næsta ári verða 11 milljarðar. Að mínu viti hefði verið betra strax frá upphafi að skoða skuldir ríkisins út frá því tjóni sem það mundi valda samfélaginu í skattahækkunum og niðurskurði ef reynt yrði að borga þær niður með þeim hætti sem við gerum á Íslandi í dag. Stoðkerfi samfélagsins, heilbrigðisstofnanir, skólar á öllum stigum skólastigsins og samgöngumannvirki eru löskuð og sum illa vegna mikils niðurskurðar. Uppsagnir starfsfólks og mannauðsflótti frá heilbrigðisstofnunum er mjög dýrkeypt leið og ekki verður séð að til dæmis þeir læknar sem flytja úr landi muni nokkurn tíma koma aftur þar sem laun í nágrannalöndunum eru það miklu hærri að sú gulrót sem nota þyrfti til að fá þá aftur heim yrði að vera ansi stór.

Á hverjum degi berast fréttir af fólki sem á ekki fyrir lyfjum vegna bótaskerðinga eða fyrir mat. Skattahækkanir eru komnar yfir þolmörk og háir skattar eru farnir að valda stöðnun hjá fyrirtækjum og almenningi en enn skal bætt í, að því er virðist. Tekjuskattsþrepin hjá almenningi hækka ekki í samræmi við launa- og verðlagshækkanir, sem þýðir að fólk greiðir hærri skatta. Atvinnuleysistryggingagjaldið er því miður enn hátt eftir þá nauðsynlegu hækkun sem varð á því á sínum tíma og hefur mjög hamlandi áhrif á vöxt fyrirtækja.

Sú staða getur komið upp í fjármálum allra, hvort sem um er að ræða einstaklinga, heimili, fyrirtæki eða hið opinbera að skuldir þeirra vaxi þeim yfir höfuð og það getur gerst vegna ýmissa ástæðna. Sú staða kom upp hér á landi og er enn uppi hjá einstaklingum, heimilum, fyrirtækjum og hinu opinbera, þ.e. hjá ríkissjóði og hjá fjölda sveitarfélaga. Fyrstu viðbrögð eru oftast að grípa til allra tiltækra ráða til að greiða skuldirnar og fara ekki í greiðsluþrot en þegar ákveðnu skuldahlutfalli er náð og vextir af skuldum eru háir er baráttan því miður nánast vonlaus. Þá baráttu hefur hæstv. fjármálaráðherra og ríkisstjórnin háð undanfarin tæp þrjú ár og alls ekki með slæmum árangri. Skuldir ríkissjóðs hafa minnkað, líka umsvif ríkisins og fita hefur verið skorin burt, og eins og ég sagði í upphafi hefur fjármálaráðherra staðið sig á margan hátt með ágætum í þessari glímu.

Hins vegar er herkostnaðurinn af þessu öllu saman gífurlegur og grunnstoðir samfélagsins eru að molna og vítahringur skattahækkana og niðurskurðar er staðreynd. Slíkur vítahringur leiðir til stöðnunar í starfsemi hins opinbera og segir fljótt til sín í öllu hagkerfinu með minnkandi umsvifum enda er hið opinbera stór hluti af hagkerfinu. Þar erum við núna, í stöðnunarsporunum.

Sú kreppa sem Ísland fór í hefur verið djúp og erfið og mjög fljótlega bentu sérfræðingar á að ekki væri hægt að vinna sig út úr henni með hefðbundnum aðferðum skattahækkana og niðurskurðar nema með gríðarlegum herkostnaði. Margar aðrar þjóðir hafa lent í svipuðum kringumstæðum og hafa eftir nokkrar tilraunir til að greiða skuldir sínar annaðhvort leitað samninga um róttæka endurskipulagningu skulda með tilheyrandi afskriftum og/eða frestunum vaxta og afborgana, eða að þær hafa hleypt af stað verðbólgu á ákveðnu stigi og látið hluta skuldanna étast þannig upp yfir nokkurra ára tímabil. Það er viðurkennd leið. Vegna þeirrar verðtryggingar sem hér er við lýði er síðari leiðin ófær Íslendingum. Ekki verður séð að til standi að leggja til atlögu við verðtrygginguna, alla vega ekki á næsta ári, og ekkert bendir til þess í málflutningi ríkisstjórnarinnar að svo verði gert á næstu árum.

Sjálfur er ég almennt ekki talsmaður þess að fé sem fengið er að láni sé ekki endurgreitt en þegar herkostnaðurinn er slíkur að mikilvægir þættir samfélagsins stórskaðast er einboðið að menn skoði þá leið af fullri alvöru að endursemja um skuldir ríkisins. Helmingun á vaxtakostnaði ríkissjóðs á næsta ári þýðir 37 milljarða kr. lækkun á útgjöldum sem gæfi svigrúm til minni niðurskurðar, til skattalækkana á einstaklinga og atvinnulíf. Það mundi gera meira en nokkuð annað til að koma gangverki efnahagslífsins aftur af stað.

Frumvarp þetta er á margan hátt framhald á slæmum fréttum fyrir samfélagið. Þar er ekki við hæstv fjármálaráðherra að sakast heldur þá sem ollu hruninu á sínum tíma og komu Íslandi í þær ógöngur sem landið lenti í. Það hefur að mínu mati hins vegar ekki verið haldið nægilega vel á spilunum við úrvinnslu mála síðan og væri óskandi að aðrar leiðir væru skoðaðar en að láta eigendur fjármagnsins ætíð fá allt sitt og almenning og almannaþjónustu ætíð bera skarðan hlut frá borði.

Ég tel mjög brýnt að stefnubreyting verði í þessum málum og ég hef sagt það á hverju einasta ári sem ég hef talað um fjárlögin. Það eru viðurkenndar leiðir og það er ekkert athugavert við að menn fari fram á það við skuldunauta sína að endursemja um skuldir. Það er eðlilegasti hlutur í heimi þegar menn standa frammi fyrir því að þurfa að loka deildum á stærsta sjúkrahúsi landsins og e.t.v. flytja sjúklinga til útlanda í aðgerð. Þá erum við komin á þann stað í niðurskurðinum að ekki verður lengur við unað.

Ég er ekki einn af þeim sem líta á ríkisstjórn Íslands og stuðningsmenn hennar sem einhver illmenni sem vilja almenningi og fólki illt. Þau eru að fást við verkefni sem er mjög vandasamt og erfitt. Okkur greinir á um leiðir í mjög mörgum málum en það er málefnalegur ágreiningur. Hér erum við hins vegar komin á þann stað varðandi fjárlög ríkisins sem og fjárlög hins opinbera í heild sinni, og fjölmörg sveitarfélög úti um allt land eru í svipaðri stöðu, að við stöndum frammi fyrir því að skaða stoðkerfi samfélagsins það mikið að það mun taka áratugi að koma hlutum í samt lag. Ég tel það vera ábyrgðarhluta að skoða ekki aðrar útfærslur á fjárlögum en gert í þessu frumvarpi.

Að endingu langar mig að koma aðeins inn á þá umræðu sem var áðan varðandi svokallaða safnliði í fjárlagafrumvarpinu því að ég hef frá upphafi starfs míns í fjárlaganefnd verið rasandi hissa á þeim aðferðum sem fjárlaganefnd hefur notað við störf sín hvað safnliðina varðar og hef bent á að furðulegustu fyrirbæri fái úthlutað fé beint frá fjárlaganefnd. Það þekkist ekki í nokkru einasta nágrannalandi. Mér er minnisstætt frá einum af mínum fyrstu fundum í fjárlaganefnd þegar kona nokkur kom á fund nefndarinnar, sem sagðist vera spákona, og bað um peninga til að byggja sér spákonuhof. Hún gaf fjárlaganefndarmönnum bein í litlum leðurskjóðum sem hún sagði vera einhvers konar spábein. Það gerðu engir nefndarmenn í fjárlaganefnd athugasemdir við þá heimsókn og ekki heldur ég. Ég vissi ekki hvaðan á mig stóð veðrið en reiknaði samt með því að þegar frúin væri farin mundu menn viðurkenna að stundum væri nú gaman í fjárlaganefnd og taka þessu sem hverju öðru gríni. En það var aldeilis ekki svo, spákonan umrædda fékk afgreiddar einhverjar milljónir hjá fjárlaganefnd.

Það eru svona mál sem þurfa að fara úr fjárlaganefnd og til einhverra fagaðila. Ef nefndarmenn geta ekki staðið í vegi fyrir svona furðulegum útdeilingum hafa þeir að mínu mati ekkert að gera í fjárlaganefnd.

Það er gott að vera laus við safnliðina úr fjárlaganefnd. Ég verð sjálfur ekki fastur fulltrúi í fjárlaganefnd á næsta ári, ég verð þar með stöðu áheyrnarfulltrúa og mun reyna að mæta á fundi nefndarinnar eftir því sem ég best get og halda uppi málefnalegri gagnrýni en líka hæla því sem vel er gert. Það er rétt að það komi fram að margt hefur verið gert rétt í fjárlögum ríkisins undanfarin þrjú ár.

Að lokum vil ég þakka fyrrverandi formanni fjárlaganefndar, Oddnýju G. Harðardóttur, fyrir samstarfið og varaformanni fjárlaganefndar líka. Það hefur verið áhugavert og ég hef lært mikið af því og óska nýjum formanni fjárlaganefndar og því miður einu konunni í nefndinni velfarnaðar.