140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[14:54]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi það hverjir eiga skuldirnar eru það að stórum hluta íslenskir lífeyrissjóðir. Það er rétt að halda því til haga að þessir sömu lífeyrissjóðir hafa fengið, ef ég man rétt, yfir 150 milljarða eingöngu í verðbætur á lán til heimilanna síðan í hruninu. Það eru peningar sem lífeyrissjóðirnir gerðu aldrei ráð fyrir í áætlunum sínum að fá. Þarna hafa þeir dottið einfaldlega ofan í gullpott sem kemur frá heimilunum í landinu. Þeir neituðu því allt árið í fyrra í samningum um lagfæringar á skuldum heimilanna að greiða nokkuð af þessu til baka og þess vegna er einfaldlega einboðið að ríkið sjálft fari þá aðrar leiðir, þ.e. ef menn hafa áhuga á því að vera heimilunum til einhvers gagns, ná í gegnum lífeyrissjóðina í þetta fé með samningum um annaðhvort frestun eða afskriftir á skuldum, skuldum sem eru það háar að þær eru að keyra samfélagið aftur í tímann um áratugi.

Það er rétt hjá hæstv. fjármálaráðherra að okkur greinir á um leiðir í þessu, en sú leið sem ég hef bent á er þekkt og viðurkennd. Þegar upp verður staðið eru einfaldlega allir betur settir vegna þess að menn hafa oftast lent í þeirri stöðu, eftir að hafa greitt niður skuldir árum saman án þess að högg sjái á vatni, að vera á miklu verri stað en ef þeir hefðu tekið ákvörðun um að fara aðra leið strax í upphafi.