140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[15:40]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir ágæta ræðu og yfirgripsmikla yfirferð um málið. Ég deili þeim skoðunum sem komu fram í ræðu hans um að bæta vinnubrögð og auka upplýsingar, og eftir því höfum við kallað. Jafnvel þótt við sitjum í ráðuneytum og höfum fullt af starfsfólki þar hef ég gagnrýnt að við höfum ekki samkeyrslu á þeim upplýsingum sem liggja fyrir frá Hagstofu, frá Fjársýslunni, frá fjármálaráðuneytinu og jafnvel frá ráðuneytum, til að geta byggt oft ákvörðunartökuna á nýjum upplýsingum. Við höfum góðar upplýsingar aftur í tímann, hvernig hlutirnir urðu til og enduðu, en við þurfum auðvitað að hafa þetta eins og í góðu fyrirtæki eða hjá sveitarfélagi og vita um raunupplýsingar á hverjum tíma.

Hv. þingmaður vakti athygli á því að ákveðnir veikleikar hafa komið í ljós í fjárlagagerðinni og þeir verða væntanlega leiðréttir í fjáraukanum á þessu ári og eru þegar komnir inn í frumvarpið. Hv. þingmaður nefndi réttilega Sjúkratryggingar Íslands og það er þá alveg skýrt í hverju er verið að fara fram úr, það eru sérgreinalækningarnar og lyfjakostnaðurinn hefur líka hækkað. Ég vildi líka vekja athygli á því, ég veit ekki hvort hv. þingmaður hefur tekið eftir því, að í frumvarpinu er í rauninni verið að auka um 2,7–2,8 milljarða til heilbrigðiskerfisins en niðurskurðurinn annars staðar er um 1,8 milljarðar þegar allt er tekið. Um er að ræða raunaukningu til heilbrigðismála þó að það komi með öðrum hætti niður.

Mig langar að biðja hv. þingmann að fara aðeins betur yfir það hvernig hann sér fyrir sér að vinna varðandi heilbrigðisstofnanir væri unnin og hvaða kröfur eigi að gera. Mig langar að heyra skoðanir hv. þingmanns á þeim málum af því að hann nefndi hvernig vinnubrögðin hefðu verið varðandi heilbrigðisstofnun á Vestfjörðum.