140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[16:33]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er ágætt að hv. þm. Illugi Gunnarsson kom að þessu efni. Þetta var eitt af því sem ríkisfjármálahópurinn ræddi á liðnu sumri. Menn greinir á um hvaða leiðir á að fara í þessum efnum. Ég tel og sagði í þessum hópi að það væri e.t.v. ekki eðlilegt að hvetja til sparnaðar á þeim tímum sem við lifum núna. Ég held að við eigum fremur að hvetja til þess að fólk noti peningana sína í þeim mæli að það skili sér í ríkissjóð með aukinni neyslu og auknum framkvæmdum, það sé ekki eðlilegt að horfa sérstaklega til sparnaðar núna heldur miklu fremur að menn noti peningana til framkvæmda, bæði heima hjá sér og annars staðar. Þetta er almenn hagfræði sem hefur verið notuð iðulega á þeim tímum sem þjóðfélög hafa ratað í mikil vandræði, að þá þurfi að koma hreyfingu á peningana, og ég held að þetta sé einmitt liður í því.