140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[16:35]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir yfirferð hans á fjárlagafrumvarpinu og eins vil ég nota tækifærið og óska hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur til hamingju með skipan hennar sem formaður í fjárlaganefnd og hlakka til að eiga samstarf við hana þar.

Sá vandi sem við Íslendingar stöndum frammi fyrir varðandi ríkisfjármálin er í rauninni samstofna þeim vanda sem önnur ríki bæði í Evrópu og í Bandaríkjunum standa frammi fyrir með sína ríkissjóði. Í grunninn held ég að vandanum megi lýsa svona: Allt frá árinu 1973 þegar heimurinn fór af svokölluðu Bretton Woods-kerfi og fram til þessa dags höfum við haft peningakerfi sem hefur ekki verið byggt á neinum fæti, t.d. gullfæti, heldur svokallað fiat-kerfi þar sem seðlabankar heimsins hafa getað prentað peninga án þess að hafa undir þeim sérstakan fót.

Á sama tíma hefur það verið að gerast að bankakerfin sem hafa þanist út byggjast nú að hluta til á því að búa sjálf til peninga, þ.e. peningar sem eru lagðir inn í bankana eru lánaðir margfalt út í framhaldinu. Þetta hefur valdið töluverðri og oft mikilli þenslu sem við sáum síðan springa út fyrir örfáum árum. En þessu einnig skylt er það að ríkissjóðir landa, bæði í Bandaríkjunum og í Evrópu, hafa orðið skuldsettari og skuldsettari. Segja má að við séum núna að sjá afleiðingarnar af þessu, fyrst í hruni fjármálakerfanna og bankastofnana og síðan í þeim gríðarlega vanda sem ríkissjóðir Vesturlanda standa frammi fyrir. Og þegar á að reyna að leysa vanda ríkissjóðanna núna þá er það svo að staða atvinnulífsins, staða hagkerfanna er miklu veikari vegna þess að áður hafði bankahrunið skollið á og dregið úr möguleikum ríkisvaldsins til að beita hagstjórnaraðgerðum til að vinna sig út úr þeim vanda sem nú er uppi. Það að auka peningaprentun og skuldsetningu er útilokað mál við þessar aðstæður. Það verður að takast á við þennan vanda.

Ég held að sú staða sem við Íslendingar erum í, og enn og aftur er keimlík og sambærileg við það sem er að gerast í kringum okkur, kalli á það að við þurfum sennilega að taka fastar á en við höfum verið að gera hingað til. Hvers vegna? Vegna þess, frú forseti, að ef við búum ekki til svigrúm fyrir atvinnulífið til að skapa verðmæti, ef við þurfum að soga svo stóran hluta af því fjármagni sem til er inn í ríkissjóð til að standa undir halla og ef svo stór hluti af efnahagsstarfseminni fer fram innan vébanda ríkisins mun það að lokum steypast yfir okkur með skelfilegum afleiðingum.

Ég get alveg sagt að miðað hefur ágætlega í ýmsu í ríkisfjármálunum en eftir stendur sú staðreynd þegar litið er til þeirrar spár sem Seðlabankinn setur fram að þar er einungis spáð 1,6% hagvexti. Hvað þýðir, frú forseti, 1,6% hagvöxtur?

Til að taka á móti nýju fólki á vinnumarkaðinn, þ.e. fjölgun inn á vinnumarkaðinn, þá þarf um það bil 1,5% hagvöxt bara til að grípa á móti því fólki. Það þýðir, ef hagvöxturinn verður 1,6% á næsta ári, að okkur miðar ekkert í því að vinna á atvinnuleysinu. Ef það verður niðurstaðan þá er það auðvitað alvarlegt mál.

Það sem ég vil gera að sérstöku umfjöllunarefni er það sem reyndar hefur verið rætt, þ.e. munurinn á þeirri hagspá sem er annars vegar hjá Seðlabankanum og hins vegar þeirri sem lögð er til grundvallar fjárlagafrumvarpinu. Eitt af meginverkefnum hagstjórnarinnar fram undan er og verður að ná að samþætta betur stjórn ríkisfjármála og hins opinbera, þ.e. sveitarfélaganna líka, og samþætta það síðan við stjórn peningamálanna, þ.e. stefnu Seðlabankans. Þetta verður að hanga saman. Ég hlýt að hafa af því áhyggjur hversu lítið er fjallað um þetta samspil í forsendum fjárlagafrumvarpsins og þeirri umfjöllun sem er um fjárlagafrumvarpið. Ég tel að eitt af því sem við þurfum að fara að gera er að breyta þessu. Það þarf að vera nánara samráð á milli Seðlabankans annars vegar og ríkisvaldsins hins vegar, þ.e. ríkisstjórnarinnar og fjármálaráðuneytisins sérstaklega, um framlagningu fjárlagafrumvarps því að þetta þarf að hanga saman.

Ég hef líka áhyggjur af því, frú forseti, að þær forsendur sem voru gefnar fyrir hagvexti árið 2013 og áfram, og reyndar þeim hagvexti sem þó á að vera á árinu 2012, séu nokkuð veikar. Stór hluti af þeim hagvexti á að koma til vegna aukinnar einkaneyslu. Hvernig skyldi sú einkaneysla sem hefur orðið nú þegar vera til komin? Jú, hún er í fyrsta lagi til komin í gegnum það að fólk hefur verið að taka út séreignarsparnaðinn. Í öðru lagi eru það vaxtaáhrifin, þ.e. menn hafa verið að fá endurgreitt frá skattinum o.s.frv. Það er sem sagt aðstoð ríkisins við þá sem eru mjög skuldugir. Í þriðja lagi voru gerðir kjarasamningar sem hækkuðu launin í sumar og að sjálfsögðu koma áhrif þar frá. En til að þeir kjarasamningar stæðu á einhverju, til að þeir væru með innstæðu og í þeim fælist kaupmáttaraukning hefðu þeir kjarasamningar þurft á því að halda að hagvöxtur á næsta ári og á árinu 2013 væri einhvers staðar í kringum 4%. Með öðrum orðum, einkaneyslan sem við sjáum að fór af stað á þessu ári á sér ekki nægilega sterkar efnahagslegar forsendur. Þess vegna er óráðlegt að gera ráð fyrir því, ef ekki verða einhverjar aðrar breytingar á hagstjórninni, að sú einkaneysla geti knúið áfram hagvöxt á næstu árum.

Þegar litið er til þess fjárfestingarstigs sem við höfum verið að horfa á á síðustu mánuðum og missirum í íslensku atvinnulífi er það svo lágt að það á að vekja svo miklar áhyggjur hjá stjórnvöldum og hjá Alþingi að grípa þarf allt að því til neyðaraðgerða vegna þess að svona lágt fjárfestingarstig er bara ávísun á eitt: Það er ávísun á að hagkerfið nái sér ekki af stað, að við verðum áfram með svona lágan hagvöxt og öðru hverju munum við fyllast einhverju smábjartsýniskasti um einkaneysluna þegar kjarasamningar verða gerðir sem síðan verður ekki innstæða fyrir. Grundvöllurinn fyrir kjarasamningum, grundvöllurinn fyrir því að gerðir séu kjarasamningar sem hafa innstæðu er að fjárfestingin í landinu hafi farið upp.

Við Íslendingar höfum verið í allt að því neðsta sæti eða í það minnsta einu af neðstu sætunum af ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu þegar kemur að fjárfestingu og hlutfalli hennar af þjóðarframleiðslunni. Það er mjög alvarlegt mál.

Það sem verður að gerast, frú forseti, fyrir utan það sem ég tel að þurfi að gera betur hvað varðar samþættingu ríkisfjármála og Seðlabankans, þó að það sé auðvitað engin stórkostleg sönnun — mér finnst það bara sláandi að það skuli vera þetta mikill munur á framtíðarsýn Seðlabankans annars vegar og þeim forsendum sem settar eru fyrir fjárlagafrumvarpinu hins vegar. Ég hef heyrt skýringar hæstv. fjármálaráðherra og tek þær alveg gildar en það er samt sem áður þessi munur. Stóra málið er: Hvernig ætlum við að koma fjárfestingunni aftur af stað? Það er lykilatriði. Það verður ekki gert þannig, frú forseti, að við aukum skattheimtu eða álögur á atvinnulífið, það verður ekki gert þannig, það er alveg ljóst. Mestu máli skiptir að við ráðumst í þær framkvæmdir sem við eigum mögulegar.

Ég hef bent á það á opinberum vettvangi, frú forseti, að stórkostleg tækifæri bíða okkar við orkuframleiðslu í landinu. Landsvirkjun hefur t.d. lagt fram hugmyndir um áætlun sína næstu 12–15 árin sem einmitt byggja á því að nýta orkulindirnar og keyra upp fjárfestingu í orkugeiranum. Það er mjög mikilvægt til þess síðan að leggja grunn að fjárlögum sem standa. Það sem meira er, það eru líka möguleikar á gríðarlega mikilli fjárfestingu í sjávarútvegi. Um leið og þessi ríkisstjórn hættir að hringla með þá atvinnugrein og menn ná saman um þá sátt sem þó var búið að ná fyrir nokkrum missirum og er fullkomin ógæfa að skuli ekki hafa gengið eftir, um leið og þessir þættir og fjárfestingin er komin betur af stað er orðin innstæða fyrir launahækkun. Þá er orðin innstæða fyrir aukinni einkaneyslu. Þá er orðin innstæða fyrir því að við getum náð alvörutökum á fjármálum ríkisins.

Ég verð að segja, frú forseti, að þegar maður horfir á hagspárnar virðist það alltaf vera þannig að menn eru að leiðrétta sig meira eða minna á milli mánaða og milli missira gjarnan niður á við og síðan er spáin alltaf sú að eftir um tvö ár verði allt saman komið í gott horf. Þetta minnir einna helst á verðbólguspár Seðlabankans á árum áður sem alltaf gengu út á það að innan 18–24 mánaða yrði verðbólgumarkmiðinu náð. Sú spá gekk þannig fyrir sig árum saman en náðist ekki.

Við Íslendingar eigum góða leiki í þessu og þeir snúa að þeim þáttum sem ég nefndi áðan varðandi fjárfestinguna. Það er lykilatriði í þessu öllu saman.