140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[16:50]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þá erum við sammála um að aukin einkaneysla ein og sér, ef ekki eru innstæður fyrir henni, er auðvitað ekki traustur grundvöllur hagvaxtar til langs tíma, það vitum við. Ég ætla ekki að gerast talsmaður einhvers uppdiktaðs hagvaxtar sem er búinn til án raunverulegra verðmæta á bak við hann, það hefur reynst okkur illa, hvort sem það er skuldadrifinn vöxtur eða hvað sem það er. Það sem við þurfum er jafnvægishagvöxtur, sjálfbær hagvöxtur þar sem ekki er eytt um efni fram og raunveruleg verðmætasköpun er á bak við. Þar erum við auðvitað lánsöm og rík í þeim efnum að vera með auðlindagrundað hagkerfi og tiltölulega mikla framleiðsludrifna starfsemi en ekki mjög mikla þjónustu. Ekki vildi ég skipta t.d. við Dani á samsetningu í hagkerfinu í ljósi þess hvernig hagþróun heimsins er. Ég er algerlega sammála hv. þingmanni um að við eigum mikla möguleika og mikil tækifæri og þau eru að byrja að virkjast. Það er staðreynd.

Varðandi sjávarútveginn þarf ég lengri tíma í það. (Forseti hringir.) Ég hef á köflum ekki haft mikla samúð með þessu væli í grein sem býr við betri afkomu og betra tekjustreymi en sennilega nokkurn tíma fyrr í sögu sinni og bullandi möguleika. (Forseti hringir.) Menn sem róa til fiskjar og þekkja óvissuna um aflabrögð og óvissuna á mörkuðum úti í heimi eiga ekki að liggja uppi í rúmi af hræðslu við stjórnvöld.