140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[16:55]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst um verðmætasköpun. Vandinn er sá fyrir þessa ríkisstjórn að hæstv. ráðherrar hafa komið hingað missirum og árum saman og lýst yfir því að fram undan væri atvinnusköpun upp á fleiri þúsund störf sem síðan hefur ekki gengið eftir. Með öðrum orðum, það hefur gengið of hægt og það er hægt að gera betur.

Hvað varðar skiptinguna á milli hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga annars vegar og almenna markaðarins hins vegar vil ég nefna þetta: Engin opinber þjónusta, sama hvaða nafni hún nefnist, verður veitt nema að baki sé verðmætasköpun. Það eru hin einföldu algildu sannindi. Það er þess vegna, frú forseti, sem er ástæða til að hamra á því að við aðstæður sem þessar hljótum við að gera allt sem í okkar valdi stendur til að létta á atvinnulífinu og ná upp fjárfestingu.

Ég vil benda á að gerð var rannsókn á vegum Harvard-háskóla sem birtist árið 2009 þar sem borin voru saman 91 tilfelli innan 21 landa innan OECD um viðbrögð við efnahagskreppu. Viðbrögðunum var skipt í tvennt. Annars vegar þar sem ríki brugðust við með því að auka ríkisútgjöldin til að koma af stað veltu. Hins vegar tilvik þar sem skattar voru lækkaðir til að koma af stað hagkerfinu. Niðurstaða rannsóknarinnar, sem leidd var af ágætum og virtum hagfræðingi, N. Gregory Mankiw, var sú að í þeim tilvikum þar sem skattar voru lækkaðir, leiddi það til þess að menn komust hraðar út úr vandanum og það sem meira var og miklu skiptir, lausnin dugði betur og til lengri tíma. Það er nauðsynlegt að hafa þetta í huga þegar rætt er um hvernig skipta eigi fjármununum á milli hins opinbera annars vegar og einkaaðilanna eða almenna markaðarins hins vegar. Þetta er grundvallaratriði, frú forseti.