140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[16:57]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil enn og aftur þakka hv. þingmanni fyrir að ræða hugmyndafræði. Það er allt of oft sem hér er ekki tekist á um hugmyndir heldur er meira hanaat í gangi, og ég vil þakka fyrir það.

Það er ekki svo að ríkið hafi staðið í vegi fyrir hagvexti. Það varð algert hrun og íslensk fyrirtæki voru mjög skuldsett og illa búin til fjárfestinga, þau sem þurftu fjármagn erlendis frá nutu ekki öll lánstrausts og það var óvissa í hagkerfinu sem olli litlum fjárfestingarvilja. Nú er verið að fjárfesta mikið. Við eigum eftir að sjá hvað þetta skilar okkur miklum hagvexti en við erum byrjuð að spyrna okkur frá botninum. Það hafa skapast tæp 3 þúsund störf og fleiri eru við það að skapast, og hagvöxtur er svo sannarlega farinn í gang.