140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[16:59]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil rétt eins og hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir fagna endurkomu hv. þm. Illuga Gunnarssonar í þingsali. Hann hefur talað málefnalega og það er okkur til framdráttar að takast svona á um ríkisfjármál og aðra stóra þætti er lúta að stjórnmálum á Íslandi og verkefnum sem við blasa og er ánægjulegt að heyra málflutning af þessu tagi.

Við höfðum, eins og ég kom inn á í ræðu minni fyrr í dag, um þrjár leiðir að velja út úr þeim ógöngum sem við vorum komin í. Það var að ná í tekjuauka svo sem eins og í formi skattahækkana þó að það megi vera í hófi. Við gátum farið í allmikinn niðurskurð á ríkisútgjöldum og menn deila um það hversu mikill hann hefði átt að vera, og við gátum breikkað skattstofna með auknum hagvexti. En ég endurtek að mér finnst það billeg stjórnmálaumræða að halda því fram að við hefðum getað lokað þessu ógnarstóra gati upp á 215 milljarða kr., takk fyrir, með því að fara eina af þessum leiðum. Ég tel að það hafi verið óumflýjanlegt að fara allar þessar leiðir til að sækja stóraukna fjármuni til að stoppa upp í gatið því að ella hefði árangurinn af viðsnúningnum orðið minni og það hefði einfaldlega þýtt fyrir okkur aukin vaxtaútgjöld sem eru blóðpeningar í þessu efni.

Því spyr ég hv. þm. Illuga Gunnarsson einfaldrar spurningar: Hefði hann talið eðlilegt og hefði hann talið það fært að fara einvörðungu eina af þessum leiðum?